Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

938. mál
[19:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og þessa ræðu hér. Ég ætla að fá að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra út í Evrópureglugerðina. Nú átta ég mig ekki á því hvort það er sú sem hann er að innleiða hér eða önnur sem gæti mögulega tekið á rafrænu fylgiseðlunum. Til að útskýra málið þá snýr þetta að fylgiseðlunum sem eru ofan í öllum töflukössunum okkar með öllum lyfjum og eru í ofboðslega smáu letri sem ég ætla að leyfa mér að fullyrða að örugglega mjög fáir lesi öðruvísi en með stækkunargleri. Á meðan krafa er um það í lögunum að slíkir fylgiseðlar fylgi með þá hefur alla vega stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs bent á að þá muni ekki nást sú hagkvæmni sem annars væri kostur á með til að mynda norrænu samstarfi við kaup á lyfjum, þegar við ætlumst samt til þess að risalyfjaframleiðendur þýði líka fylgiseðla á íslenska tungu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé einhver hluti af þessari reglugerð sem hér um ræðir eða hvort hann viti hver niðurstaðan var í því. Ég átta mig á því að við höfum verið að reyna að pressa á Evrópusambandið að taka það út úr reglugerðinni þannig að löndum væri í sjálfsvald sett hvort þau geri kröfu um það að fylgiseðlar séu útprentaðir með lyfjum eða rafrænir, sem ég held að verði að viðurkennast að ætti býsna vel við hjá okkur á Íslandi.