132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu við 3. umr. frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um að hlutafélagavæða Rafmagnsveitur ríkisins. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt á það ríka áherslu að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem eigi að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem stigin hafa verið í markaðsvæðingu raforkukerfisins að undanförnu hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað.

Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda, að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir að verða seld á almennum markaði. Þessi áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu. Við þekkjum sögu Símans. Fyrst var hann hlutafélagavæddur með hástemmdum yfirlýsingum, eins og við munum væntanlega heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra núna, um að ekki standi til að selja hann, það sé bara formbreyting. En Síminn hafði ekki fyrr verið hlutafélagavæddur en hafinn var undirbúningur að sölu hans. Nú er hann seldur, þvert gegn vilja þjóðarinnar, að mínu mati.

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum andvíg því að einkavæða raforkukerfið eins og hér hefur verið lagt til. Við munum greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.