135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég reyni fyrst að skilgreina og flokka velferðarstofnanir, þá er væntanlega verið að vísa til þeirra stofnana sem sinna öldrunarþjónustu sem fyrst og fremst er þá á vegum sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana, einnig þeirra stofnana sem sinna þjónustu við fatlaða, einkum á sambýlum sem ríkið á og rekur, og svo þeirra sem starfa á heilbrigðisstofnunum sem ríkið á og rekur í flestum tilfellum. Allir þessir aðilar eru í samkeppni við einkamarkaðinn um starfsfólk auk þess sem þeir eru í samkeppni innbyrðis um að fá til sín starfsfólk. Aðstæður aðila til að fá til sín aukið starfsfólk eru mjög misjafnar, einkum eftir staðsetningu á landinu. Þær velferðarstofnanir sem eru utan höfuðborgarsvæðisins eiga í minni vandræðum með að fá til sín fólk en velferðarstofnanir á höfuðborgarsvæðinu þar sem mönnunarvandinn hefur verið hvað verstur. Þá er vandinn helst bundinn við störf tengd þrifum og í eldhúsi en minna vandamál hefur verið í fagstéttum. Það eru engin ný sannindi að það sé mannekla á stofnunum af þessu tagi og það eitt að hækka launin hefur yfirleitt reynst skammgóður vermir.

Af hverju hefur mannekla stafað á þessum stofnunum? Meginástæðan er sú að það hefur vantað fólk til starfa á íslenskum vinnumarkaði og miðað við spár Samtaka atvinnulífsins er ekki fyrirsjáanlegt að á því verði breyting í náinni framtíð. Hins vegar gefa spár um aukið atvinnuleysi annað til kynna þannig að þetta gæti breyst og jafnvel er þegar farið að breytast eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Annað er að möguleikar á framþróun í starfi fyrir þá starfsmenn sem hér um ræðir eru afar takmarkaðir. Þar eru kannski helstu sóknarfærin fyrir opinbera vinnuveitendur. Auknir möguleikar starfsmanna til menntunar og framþróunar í starfi og nýrra tækifæra gætu leitt til þess að auka sókn fólks í áðurnefnd störf. Því miður hafa tækifæri þeirra starfsmanna sem þessum störfum sinna, hjúkrunar- og umönnunarstörfum, oft verið takmörkuð og ýmsir múrar verið reistir sem komið hafa í veg fyrir að starfsfólk hafi getað aukið réttindi sín og þróað starf sitt í nýjar áttir. Þetta er kannski það sem við þurfum helst að huga að til að ná fram raunverulegum og varanlegum breytingum í þessu efni þannig að starfsumhverfið og þeir möguleikar sem bjóðast fólki í þessum störfum þegar litið er til framtíðar séu fjölbreyttari og meiri. Við skulum vona að þeir aðilar sem reka þessar stofnanir — hér er auðvitað um rekstur að ræða, við megum ekki gleyma því — beri gæfu til að líta til þessara þátta og þróa þá í störfum sínum í framtíðinni.