140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir að leggja fram þetta mikilvæga frumvarp. Frumvarpið er ákaflega vel unnið og varðar stórkostlegar bætur á mannréttindum og mannhelgi transfólks.

Frumvarpið er í raun og veru liður í því hvernig við í samtímanum erum að hrista upp í kynjakerfinu og hvernig hugmyndir um kyngervi, kynhlutverk og fleiri slíka þætti eru að breyta um mynd. Ég vona að hv. velferðarnefnd nái að afgreiða frumvarpið þannig að við getum gert það að lögum fyrir sumarið.

Ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að ég vil óska eftir því að hv. velferðarnefnd í umfjöllun sinni um málið grennslist fyrir um hvernig gangi vinnu við breytingar á hegningarlögum. Gera þarf ákveðnar breytingar á 180. gr. og 233. gr. í þeim lögum, bæði hvað varðar bann við mismunun, koma þarf inn ákvæði um transfólk, og eins þarf að koma inn banni við opinberum ærumeiðingum eins og aðrir þjóðfélagshópar njóta. Ég veit að hópurinn sem skrifaði frumvarpið kom þeim ábendingum til velferðarráðuneytisins. Hæstv. velferðarráðherra hefur sent bréf til innanríkisráðuneytisins og mikilvægt er að nefndin grennslist fyrir um hvernig þeirri vinnu vindur fram.

Nú geri ég ráð fyrir að það komi fram í umsögnum um frumvarpið að gera þurfi þessar breytingar. En ég held að það skipti miklu að við getum gengið þannig frá málinu að gengið sé alla leið í að tryggja transfólki sömu mannréttindi og öllu öðru fólki í samfélaginu.

Ég óska nefndinni velfarnaðar í starfi og vonast til að við náum að gera þetta góða frumvarp að lögum fyrir sumarið.