141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

uppbygging hjúkrunarrýma í Hafnarfirði.

[16:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er sem sagt staðfest. Hjúkrunarrýmum hefur fækkað. Það er eitthvað sem við vissum fyrir. En ég vil ítreka spurningu mína: Er ráðherra reiðubúinn að skoða hvort ekki sé hagkvæmara, skynsamlegra og einnig fljótlegra, til að mæta þeirri brýnu þörf sem er á hjúkrunarrýmum á landinu, að byggja strax upp á Sólvangi?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra nánar um Sólvang því að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr erum við Hafnfirðingar tortryggnir varðandi breytingar sem snerta Sólvang. Af hverju? Jú, meðal annars vegna þeirra loforða sem við fengum en voru svikin af hálfu ríkisstjórnarinnar og tengjast lokun St. Jósefsspítala sem er í dag því miður ekkert annað en draugahús.

Það er mikil og sterk saga tengd Sólvangi. Það skiptir máli. Sólvangur er nokkurn veginn í miðbæ Hafnarfjarðar. Þess vegna spyr ég ráðherra öðru sinni að því hvort hann taki ekki undir með mér að réttast sé að ekki verði farið í framkvæmdirnar á Ásvöllum fyrr en búið er að tryggja að Sólvangur fái ákveðið hlutverk, (Forseti hringir.) t.d. sem miðstöð öldrunarþjónustu.