141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi eru lagðar til tvær breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Tillögur þessar eru byggðar á niðurstöðu nefndar sem fékk það hlutverk að endurskoða fjárfestingarheimildir sjóðanna í bráð og lengd, en það er mat hennar að rétt sé, með vísan til aðstæðna á markaði, að auka svigrúm sjóðanna til fjárfestinga á meðan unnið er að heildarendurskoðun á fjárfestingarheimildum til lengri tíma.

Annars vegar er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 25% af hreinni eign sjóðsins í óskráðum verðbréfum. Gert er ráð fyrir að heimildin verði tímabundin. Gert er ráð fyrir að framboð skráðra hlutabréfa muni aukast lítillega á komandi mánuðum, hins vegar er ekki útlit fyrir mikla útgáfu nýrra skráðra skuldabréfa næstu missirin, m.a. vegna minni lánsfjárþarfar ríkissjóðs, sem er ánægjuefni í sjálfu sér. Aðrir fjárfestingarkostir sem ekki teljast til óskráðra verðbréfa eru einkum sjóðfélagalán og innstæður. Ekki er útlit fyrir mikla aukningu sjóðfélagalána og innstæður lífeyrissjóða eru þegar orðnar mjög háar og er æskilegra að þær minnki frekar en aukist. Því er fyrirsjáanlegt að framboð af skráðum fjárfestingarkostum muni ekki duga til þess að anna eftirspurn lífeyrissjóðanna á næstunni, en fyrir liggur að fjárfestingarþörf nemur um 100–130 milljörðum króna árlega. Í ljósi þess er lagt til að heimilt verði að fjárfesta aukið hlutfall hreinnar eignar í óskráðum verðbréfum eða sem nemur fjórðungi eins og áður sagði.

Hins vegar er lagt til að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár, til 31. desember 2014, en auðveldara er fyrir lífeyrissjóði að standa að samlagshlutafélagi ef hlutdeild hvers og eins má vera allt að 20%.

Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga með óskráðum skuldabréfum verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð fjárfestingartakmörkunum 36. gr. laganna. Er breytingunni ætlað að greiða fyrir samningum milli lífeyrissjóða sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags og launagreiðenda sem tryggðu starfsmenn í sjóðunum og ábyrgjast greiðslur til þeirra úr sjóðunum. Ákvæðið sem hér er lagt til hefur ekki áhrif á stöðu bakábyrgðaraðila.

Á næstu árum er ljóst að við þurfum að auka verðmætasköpun í hagkerfinu og afla meira en við eyðum. Til að tryggja það markmið er mikilvægast að auka atvinnuvegafjárfestingu. Lítil og meðalstór fyrirtæki í vexti þurfa fjármagn til að geta aukið framleiðslu sína, sinnt þróunarstarfi og nýsköpun og fjölgað starfsmönnum. Mörg þessara fyrirtækja eru ekki tilbúin til að taka það stóra skref sem full skráning á markað felur í sér en engu að síður munu þessi fyrirtæki fjölga störfum hvað mest á næstunni og auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins, sem við þurfum svo sannarlega á að halda.

Vegna þessa hafa talsmenn tækni- og hugverkageirans talað ötullega fyrir því að lífeyrissjóðirnir fái tímabundnar heimildir til að eiga hærra hlutfall af óskráðum bréfum. Bara sú breyting getur falið í sér allt 100 milljarða innspýtingu í vaxandi íslensk fyrirtæki á næstu missirum. Atvinnulíf okkar munar um minna.

Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins var engu að síður lögð áhersla á að fara að öllu með gát. Því var nefnd um endurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða falið að meta tímabundna rýmkun þá sem hér er lögð til til að eiga óskráð bréf. Nefndin starfar undir formennsku Gylfa Magnússonar, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og er einnig skipuð fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, Landssamtaka lífeyrissjóða, fjármála- og efnahagsráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Einhugur var í nefndinni um að leggja til framangreinda breytingu og fagna ég því. Nefndin mun starfa áfram að ítarlegri endurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna og skila lokaskýrslu sinni fyrir lok maímánaðar. Það kom líka skýrt fram á tækni- og hugverkaþingi, sem margir þingmenn sátu, að töluverður áhugi var á þessu vegna þess að þessi fyrirtæki þurfa svo sannarlega á innspýtingu að halda.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.