141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að eðlilegt sé að hv. þingmaður fari enn og aftur yfir þessi atriði, þá tengd lögunum um lífeyrissjóðina. Ég hef trú á því að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, sem sitja í þeirri nefnd sem komst að þeirri niðurstöðu að heimila þetta, telji varnaglana nægjanlega þannig að menn fari varlega í þessum efnum.

Ég veit hins vegar að gríðarleg þörf er á fjárfestingum inn í íslensk fyrirtæki í dag. Menn eru, eins og hv. þingmaður kom inn á, enn þá ragir við að fjárfesta í litlu og meðalstóru fyrirtækjunum en það er von okkar að með þessu máli takist að koma fjármunum þar sem á þarf að halda inn í fyrirtæki sem eru með litlar skuldir, eru með sterka stöðu en þurfa ákveðna innspýtingu til að taka næstu skref í sínum vexti. Það er markmiðið með frumvarpinu og ég vona svo sannarlega að það leiði til þessa.

Næsta skref er síðan að reyna að örva fjárfestingu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum með því að veita fjárfestum eða sjóðum ákveðnar ívilnanir í gegnum skattkerfið til að gera það. Og vonandi náum við líka samstöðu á næsta þingi um slíkt verkefni.