141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi kom málið í þingið fyrir tveimur vikum og er búið að vera nokkrum sinnum á dagskrá. Það er eitt þeirra mála sem ekki hefur náðst að mæla fyrir hér sökum þess að stjórnarandstaðan taldi sig þurfa að ræða hér einstaka mál mjög ítarlega, eins og sagt er. Ég hefði gjarnan viljað að málið hefði farið í nefnd fyrir tveimur vikum en þetta er staðan í þinginu og þess vegna er ekki mælt fyrir málinu fyrr en nú. Þannig er það nú.

Málið er afar brýnt, ekki aðeins vegna lífeyrissjóðanna, þeir þurfa auðvitað að fjárfesta og hafa óskað eftir því að fá aukið svigrúm til þess, en ekki síður vegna ákalls fyrirtækjanna í landinu. Ég óskaði eftir því að nefnd skoðaði málið þar sem í eiga sæti fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þeir fulltrúar fara nú í gegnum allar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Var það gert vegna þess þrýstings sem skapast hefur af hálfu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ekki munu strax fara í það ferli að skrá sig á markað, enda það eru ekki mörg fyrirtæki þar enn þá, því miður. Það er auðvitað æskilegt að sem flest skrái sig þar. Þessi fyrirtæki óskuðu eftir þessu og því bað ég nefndina um að skoða málið þar sem ég vildi fara að öllu með gát.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri æskilegt tímabundið vegna þess að á meðan við erum með fjármagnshöft ríkti hér óeðlilegt ástand. Ég taldi eðlilegt og sjálfsagt að verða við þessu vegna þess að það er gríðarleg þörf fyrir atvinnuvegafjárfestingu. Við erum með sterk fyrirtæki þó að þau séu ekki skráð á markað. Örfá íslensk fyrirtæki eru skráð á markað og hin eru mörg hver mjög sterk og stöndug og þurfa bara örlitla innspýtingu í gegnum fjárfestingu frá ábyrgum aðila sem getur stutt viðkomandi til lengri tíma til þess að taka næstu skref í starfsemi sinni. Þess vegna er þetta mál lagt fram.