145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

upplýsingar um skattskil.

[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að á undanförnum dögum höfum við skýrt nokkuð rækilega hvernig ríkisstjórnin sér framhaldið. Við erum á miðju þingi sem við ætlum að klára á grundvelli þeirra mála sem ríkisstjórnin hefur kynnt og liggja fyrir í fjölmörgum nefndum þingsins. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þingstörfin komist í eðlilegt horf og mér sýnist að svo sé.

Ég mælti síðast í gær fyrir tveimur stórum málum, um lækkun tryggingagjalds og um frekari stuðning við fyrirtæki í vexti, nýsköpunarfyrirtæki. Þetta eru dæmi um mál og að öðru leyti vísa ég í þingmálaskrána. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér í stjórnarsamstarfi þessara sömu flokka. Þeir eru með sama meiri hlutann og áður var og hyggjast halda þessu þingi áfram. Þannig er það.

Varðandi það sem síðan er spurt um er það svo að hér á þinginu hafa menn í mörg ár átt samtal um það með hvaða hætti við gætum helst komið til móts við kröfuna um skráningu upplýsinga. Úr varð að menn settu reglur um hagsmunaskráningu á þingi þar sem meðal annars er farið yfir skráningu eigna, fasteigna og annarra slíkra hluta. Ég tel best að vilji menn gera breytingar á þessu fyrirkomulagi um upplýsingagjöf kjörinna fulltrúa um mögulega hagsmunaárekstra sína gerum við það hér, á þverpólitískum vettvangi.

Undir lok máls síns vakti hv. þingmaður athygli á því að hann teldi mikilvægt að menn gætu gert grein fyrir því sem sagt hefur verið um möguleg tengsl við aflandsfélög. Það gerir bara hver og einn upp með þeim hætti sem hann kýs, (Forseti hringir.) þar á meðal ég.