145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[13:48]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla í stuttri ræðu að fara örlítið yfir þær athugasemdir sem bárust vegna breytinga í nefndaráliti sem lagt var fram við 2. umr. um umrætt frumvarp um húsnæðissamvinnufélög. Eftir 2. umr. í þinginu bárust athugasemdir, hv. velferðarnefnd tók þær til athugunar og fór yfir þær og ég mun í stuttu máli rekja þær og svo niðurstöður nefndarinnar er varða þá þætti sem teknir voru til athugunar.

Í fyrsta lagi ber að nefna að Búseti hsf. lagði til að bætur sem húsnæðissamvinnufélög greiddu vegna þess að búseturéttur félli niður vegna nauðungarsölu búsetuíbúðar, samanber 2. og 3. málslið 12. efnismálsgreinar 20. gr. frumvarpsins, hefðu ákveðið hámark og tækju mið af aðstæðum en væru ekki ákveðnar að álitum. Bæturnar ættu ekki að geta orðið hærri en verðmæti og endursöluverð umrædds búseturéttar. Bæturnar skyldu einnig taka mið af gangverði búseturéttar á markaðssvæðum með tilliti til íbúðagerðar en það kynni að vera lægra en hæsta leyfilega verð réttarins.

Nefndarmenn töldu þegar felast í fyrirmælum fyrrgreindra ákvæða að bæturnar skyldu taka mið af aðstæðum en þannig segir í 3. málslið 12. efnismálsgreinar 20. gr. að við ákvörðun bótanna skuli hafa hliðsjón af andvirði búseturéttar í sambærilegri búsetuíbúð húsnæðissamvinnufélagsins á þeim tíma sem bætur skulu greiddar. Andvirði búseturéttar ræðst einkum af því verði sem fá mætti fyrir hann en ætla má markvisst af afstöðu viðkomandi húsnæðissamvinnufélaga að öðru leyti.

Nefndarmenn telja því ekki tilefni til að setja bótunum tiltekið hámark. Nefndarmenn telja eðlilegt að kveða á um að bæturnar skuli ákveðnar að álitum þar sem erfitt getur verið að fylgja nákvæmri reikniviðmiðun við ákvörðun þeirra.

Auk þessara athugasemda bárust athugasemdir frá Búseta á Norðurlandi sem ég mun gera grein fyrir í stuttu máli.

Búseti á Norðurlandi hsf. gerði nokkrar athugasemdir við frumvarpið eftir 2. umr. Félagið gagnrýndi markaðsvæðingu viðskipta með búseturétt, en samkvæmt 1. málslið 2. efnismálsgreinar 20. gr. frumvarpsins fer um sölu búseturéttar samkvæmt samþykktum húsnæðissamvinnufélags, þar á meðal hvernig búseturétturinn skuli auglýstur meðal félagsmanna þess, hver tilboðsfrestur skuli vera, hvernig … [Hljóðtruflanir í hljóðkerfi.]

(Forseti (BjÓ): Forseti gerir stutt hlé á fundinum.)

Þetta er mjög óþægilegt.