149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[11:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Það er full ástæða til að styðja þetta mál, enda er nauðsynlegt að við stöndum okkur vel í öllu sem snýr að þróunarsamvinnu. En ég gerði engu að síður fyrirvara við nefndarálitið, aðallega vegna þess að mér finnst, rétt eins og hv. þm. Loga Einarssyni, mikilvægt að árétta nauðsyn þess að við stöndum við þær skuldbindingar sem við höfum gert. Þá er ég auðvitað að vísa í hin 0,7% vergrar landsframleiðslu til þróunarmála sem hafa verið markmið mjög lengi. Þeim hefur aldrei verið náð.

Og þegar yfirlýstu markmiði er ekki náð árum og jafnvel áratugum saman fer maður auðvitað að spyrja sig hvort því sé lýst yfir til þess að hafa lýst því yfir — eða hvort því sé lýst yfir til þess að hugsanlega ná því. Mann er farið að gruna að það sé hið fyrrnefnda, að það sé ekkert endilega á bak við þetta.

Auðvitað er í krónum talið búið að hækka töluvert mikið til þróunarmála á undanförnum árum, en það er náttúrlega svolítið kjánalegt að slá um sig með krónutöluhækkun, sem er ekki í anda þess skilnings sem liggur til grundvallar þessum 0,7% af vergri landsframleiðslutölu sem hefur verið ákveðið að skuli miða við í alþjóðlegu samhengi. Þegar við vísum í krónutöluhækkun erum við hreinlega að segja að þar sem við erum ögn ríkari í dag en í gær séum við á einhvern hátt orðin að betra fólki. Ég held að það sé í besta falli rangt og líklega töluvert verra en það.

Enn fremur er mjög alvarlegur galli á okkar bókhaldi þegar aðgerðir sem snúa að löggæslu og aðstoð við flóttafólk hér á landi eru taldar sem þróunaraðstoð í einhverjum skilningi. Það er auðvitað bókhald sem þarf að leiðrétta, vegna þess að þegar fólk er komið hingað er það ekki lengur fólk í löndum sem þarfnast þróunaraðstoðar, heldur er það fólk í vestrænu, þróuðu ríki sem er að biðja um persónulega aðstoð sökum þess að það gat ekki fengið þá aðstoð sem það þurfti heima fyrir. Þetta er frekar augljóst. Og það að við skulum halda áfram að telja okkur það til tekna að sinna okkar grundvallarábyrgð að einhverju leyti er svolítið vandræðalegt.

Það er ástæða til að nefna í þessu samhengi, svo ég vísi í ágæta bók eftir Branko Milanovic, sem heitir Global Inequality, eða Ójöfnuður í heiminum, að við erum enn þá í þeirri stöðu að fæðingarstaður fólks í heiminum er líklega stærsti þátturinn sem ákvarðar hversu miklar tekjur fólk getur haft yfir lífstíðina. Samkvæmt Milanovic getur fæðingarlandið eitt og sér ráðið allt að tveimur þriðju af lífsafkomunni.

Í sömu bók er bent á að á síðustu áratugum hefur fólk í fyrstu og öðrum tekjutíundum á heimsvísu hækkað hvað mest í tekjum. Það þýðir í rauninni ekkert annað en að fólk sem var með sirka einn dollara á dag, eða 100 kr. á dag, í tekjur, er núna komið upp í 200 kr. á dag, sem þykir töluverður árangur í prósentum talið en er engu að síður við hungurmörk, alveg sama í hvaða landi fólk býr. Á sama tíma er sá hópur sem hefur hækkað næstmest í tíundu tekjutíund á heimsvísu. Það er auðvitað næstum því ógerlegt að bera þessa hópa saman: Þegar þeir sem eru í tíundu tekjutíund hækka um 60% miðað við fyrri stöðu á einum áratug, þýðir það hækkun upp á fleiri hundruð þúsund dollara og/eða fleiri milljónir kr. á ári.

Í þessu samhengi er kannski rétt líka að hugsa út í þær stóru breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum, vegna þess að ástandið er slæmt núna, og það vita allir, en ástandið kemur hugsanlega til með að verða miklu, miklu verra.

Í ágætri bók David Wallace-Wells, sem heitir The Uninhabitable Earth, eða Óbyggileg jörð, kemur fram að við 2° meðalhlýnun andrúmsloftsins, sem er nánast ógerlegt að koma í veg fyrir að svo komnu máli, horfum við upp á hrun íshellnanna og að fleiri en 400 milljón manns á heimsvísu muni búa við vatnsskort. Stórborgir í kringum miðbaug munu verða óbyggilegar og jafnvel tiltölulega norðarlega á heimskringlunni og sunnarlega munu hitabylgjur drepa þúsundir manna á hverju ári. Þá erum við að tala um t.d. 32 sinnum fleiri öfgafullar hitabylgjur á Indlandi, sem er land þar sem er mikil fátækt nú þegar.

Þetta er auðvitað skásta tilfelli — miðað við 2° hækkun. Ef við tölum um 3° hækkun erum við að tala um hrun landbúnaðar í Evrópu og þá er rétt hægt að ímynda sér hvernig ástandið verður sunnar eða nær miðbaug.

Þannig að ábyrgð okkar á að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar er gríðarlega mikil í þessu samhengi. Við verðum að átta okkur á því að ef okkur þykja þessi 0,7% erfið núna getum við beðið fyrir okkur um hvernig það verður ef allt fer á versta veg.

Þessu til viðbótar verðum við líka að skoða áhrif iðnvæðingar. Nú er það svo að þegar iðnbyltingin byrjaði á sínum tíma magnaði hún upp bilið milli fátækasta og ríkasta fólks heims svo mjög að enn hefur ekki verið bætt fyrir. Og nú eru mörg lönd sem töldust og hafa talist þróunarlönd mjög lengi búin að vera að iðnvæðast mjög hratt, og þá er kannski nærtækasta dæmið Kína. En eftir stendur að mörg lönd eru enn þá að berjast við að ná jafnvel þeim grundvallartækniframförum, eins og rennandi vatni í öllum húsum og rafmagni í öllum húsum, sem við teljum vera fullkomlega eðlilegan og sjálfsagðan part af okkar lífi núna. En ef við bætum því ofan á, þessari svokölluðu fjórðu iðnbyltingu sem verið er að spá, má búast við því að áhrif sjálfvirknivæðingar og gervigreindar muni jafnvel magna enn frekar bilið milli ríkasta og fátækasta fólks heims. Þá verður enn ríkari ástæða til þess að við hugum vel að því hvernig þessum málum verði háttað á næstunni.

Það er mjög ríkt samhengi milli þess hversu mikill ójöfnuður er í heiminum og þess hversu margir þurfa á aðstoð að halda. Og best væri ef við mundum búa þannig um hnútana að ákveðinn innviða- og tæknijöfnuður ríkti milli landa þannig að ekki þyrfti lengur á þróunaraðstoð að halda, að markaðir og eðlileg viðskipti í heiminum næðu yfir alla þá jöfnunareiginleika sem þurfum. En við erum ekki komin þangað og við munum ekki komast þangað með því að standa okkur jafn illa og raun ber vitni.

Það að, eins og ég sagði áðan, slá um sig með 0,35% af vergri landsframleiðslu árið 2022 og láta eins og það sé á einhvern hátt gott er í rauninni hlægilegt, forseti, í því ástandi sem við vitum að við stöndum frammi fyrir, að möguleiki er á að ef loftslagið hitnar eins og spár hafa gert ráð fyrir gætum við horft upp á milljarð manna á flótta í verstu tilfellum — eða reyndar ekki einu sinni verstu tilfellum, en það er svona ein af líklegri niðurstöðum ef við förum upp fyrir tvær gráðurnar. Þannig að þá eru milljón flóttamenn frá Sýrlandi allt í einu orðið að svona þægilegu og meðfærilegu vandamáli sem við hefðum alveg getað brugðist rétt við á sínum tíma.

Ef lönd heimsins ætla að taka þróun og þróunaraðstoð alvarlega mega þau ekki setja það fyrir sig að eyða aðeins fleiri krónum í dag, hreinlega vegna þess að það er í þeirra eigin þágu að standa sig betur svo að þau lendi ekki í því að þurfa að fást við stærri vandamál í framtíðinni. Það er hreint hagsmunamat, án þess að maður vísi í hin fjölmörgu mannréttinda- og mannúðarrök sem eru til staðar í svona málum. Ef við stöndum okkur illa í þessu munum við þurfa að fást við töluvert fleiri flóttamenn í framtíðinni og við munum þurfa að fást við töluvert stærri vandamál í hagkerfi okkar í framtíðinni. Það verður erfiðara fyrir okkur að nálgast mat og annað. Mér finnst það í sjálfu sér ekki vera ástæðan sem við ættum að vera að horfa á. En ef fólk er ekki tilbúið til þess að ná 0,7% markmiðinu af hreinum mannúðarástæðum einum og sér ætti það alla vega að horfa til eigin hagsmuni og komast að þeirri niðurstöðu að við eigum að standa okkur vel.