149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn nokkra aðila frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúa frá UNICEF, fulltrúa frá embætti landlæknis og fulltrúa frá embætti umboðsmanns barna. Umsagnir bárust frá allnokkrum aðilum, frá embætti landlæknis, embætti umboðsmanns barna, Félagi fósturforeldra, Landspítalanum, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Miðstöð foreldra og barna, Öryrkjabandalagi Íslands, Persónuvernd, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Umhyggju – félagi langveikra barna og Ungmennafélagi Íslands.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til þess að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Tillögurnar eru settar fram í sjö köflum og 49 liðum og innihalda aðgerðir þess til að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir.

Með lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur. Í almennum athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu sáttmálans, nr. 5/2003, áréttar nefndin nauðsyn þess að aðildarríkin setji sér samræmda og heildstæða aðgerðaáætlun sem þau vinni samkvæmt í þeim tilgangi að styrkja og tryggja virðingu fyrir réttindum barna. Er vísað til þess m.a. að í slíkri aðgerðaáætlun skuli tekið mið af aðstæðum allra barna og skuli í því sambandi sérstaklega litið til þess hvernig megi styrkja stöðu viðkvæmra hópa.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að íslenska ríkið hefði ekki sett sér slíka aðgerðaáætlun. Hins vegar kom fram að þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra hefði skipað samráðsnefnd þingmanna sem hefði verið falið að endurskoða barnaverndarlög og leggja til aðrar breytingar sem kynnu að vera nauðsynlegar til að skapa heildarsýn í málefnum barna og þjónustu við þau. Telur nefndin að þær hugmyndir sem fram koma í þingsályktunartillögunni samræmist þeim verkefnum sem þingmannanefndinni hafa verið falin. Í samræmi við ábendingar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna telur nefndin þó mikilvægt að þróun í málefnum barna birtist með skýrum hætti í fjármagnaðri aðgerðaáætlun sem unnin verði í samráði allra ráðuneyta til þess að tryggja að hugmyndir að úrbótum komi til framkvæmda og íslenska ríkið geti staðið að fullu við skuldbindingar sínar samkvæmt barnasáttmálanum.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ríkisstjórnin vinni slíka aðgerðaáætlun í málefnum barna. Tillagan er yfirgripsmikil og stefnir að því að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir. Lagðar eru til tillögur að úrbótum í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik og geðraskanir, langveikra barna, innflytjenda, barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda eða hegðunarvanda og til að vernda börn gegn heimilisofbeldi, kynferðisbrotum og vanrækslu.

Þótt nefndin taki undir þau sjónarmið sem fram koma í þingsályktunartillögunni telur nefndin rétt að efni hennar verði nýtt við vinnu ríkisstjórnarinnar við að bregðast við athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Undirstrikar nefndin í því sambandi almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar, nr. 5/2003, um að unnin verði aðgerðaáætlun í málefnum barna. Telur nefndin nauðsynlegt að ríkisstjórnin vinni þá aðgerðaáætlun svo tryggja megi þverfaglegt samráð allra ráðuneyta.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Guðjón S. Brjánsson framsögumaður og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir þetta nefndarálit rita Halldóra Mogensen formaður, Guðjón S. Brjánsson framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Frú forseti. Þingsályktunartillögu þeirri sem hér hefur verið lýst og reifuð í stuttu máli er vísað til frekari umfjöllunar og úrvinnslu ríkisstjórnarinnar. Hún var lögð fram af hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og hennar samflokksmönnum öllum í Samfylkingunni. Eins og fram hefur komið er þessi tillaga umfangsmikil. Hún er ítarleg og henni er skipt í sjö kafla, eins og fyrr hefur verið drepið á, sem hver um sig tekur á mikilvægum þáttum til að styrkja stöðu barna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Þessi málaflokkur er, eins og komið hefur fram, eitt af hjartans málum þingflokks Samfylkingarinnar. Það kom fram í umræðum í nefndinni að enginn efnislegur ágreiningur er á ferðinni. Það var eindrægni í málinu en það var sátt um það, í ljósi þess í hvaða ferli þessi málefni eru um þessar mundir, að vísa tillögunni til frekari umfjöllunar ríkisstjórnar — og væntanlega þeirrar þverfaglegu nefndar sem er að störfum. Umsagnir sem bárust nefndinni voru allar á sömu lund, að tillaga þessi væri gagnleg, þörf og tímabær. Orð eru vissulega til alls fyrst en við viljum ekki láta sitja við orðin tóm og köllum auðvitað eftir raunverulegum og ábyrgum aðgerðum.

Málefni barna hafa verið talsvert mikið til umræðu á hinum pólitíska vettvangi að undanförnu, eins og gjarnan áður. Það eru mörg bráð og brýn verkefni sem við þurfum að vinna að og koma til framkvæmda. Til marks um þær áherslur sem greina má í málaflokknum um þessar mundir er auðvitað það, sem dæmi, að 1. janúar varð sú breyting að skipaður var sérstakur barnamálaráðherra, þ.e. áherslur ráðherra urðu á þá lund að félagsmálaráðherra heitir nú félags- og barnamálaráðherra. Auk þess er starfandi, eins og fyrr er getið, þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna, með stuðningi og í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna, til að fara með endurskoðun barnaverndarlaga og eftir atvikum annarra laga sem breyta þarf samhliða til að fá heildarsýn í málefnum barna, eins og drepið er á í nefndarálitinu.

Síðan má geta þess að ráðherra lagði fyrr í þessari viku fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2019–2022 en samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skal ráðherra leggja fram slíka stefnumótun að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, en þær voru síðast fyrir u.þ.b. 11 mánuðum. Slíka stefnumótun á að leggja fram á fjögurra ára fresti. Við gerð áætlunarinnar að þessu sinni er boðað nýtt verklag með víðtæku og virku samráði við helstu hagsmunaaðila, sveitarfélög og stofnanir um áhersluatriði og forgangsröðun.

Frú forseti. Efni þeirrar tillögu sem hér hefur verið reifuð í nefndaráliti fellur mjög vel að því starfi sem er í deiglunni og ætti að geta auðveldað og ýtt undir raunverulega og mikilvæga aðgerðaáætlun til heilla fyrir öll börn í þessu samfélagi.