149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[13:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Málið sem við ræðum er eitt af fremstu forgangsmálum okkar í Samfylkingunni og fjallar um aðgerðaáætlun fyrir næstu fjögur ár til að styrkja stöðu barna og ungmenna. 1. mgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2019–2022, til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggist m.a. á rétti barna eins og hann er skilgreindur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.“

Þegar ég var að undirbúa þetta mál fór ég yfir tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2012 um framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2011 til aðildarríkja um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur og Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun.

Einnig fór ég yfir skýrslu umboðsmanns barna frá árinu 2017 um helstu áhyggjuefni ásamt nýlegum skýrslum umboðsmanns barna.

Við lögðum til í þessari þingsályktunartillögu að þriðja valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins yrði lögfest á árinu 2019. Slíkt sjálfstætt frumvarp liggur fyrir þinginu þannig að þingið getur enn þá tekið það í sínar hendur þó að þessari þingsályktunartillögu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Einnig var litið til þess við samningu þessarar þingsályktunartillögu hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, t.d. vegna veikinda þeirra eða fötlunar.

Umsagnir sem bárust um tillöguna voru afar jákvæðar. Nokkrar voru með ábendingar sem sannarlega er þess virði að skoða og ég vona að þó að hv. velferðarnefnd hafi ákveðið þessa afgreiðslu á málinu sé það ekki bara þingsályktunartillagan með þeim tillögum sem þar eru settar fram heldur verði einnig farið vandlega yfir umsagnirnar sem bárust nefndinni vegna þessa máls. Það er gagnlegt að skoða umsagnir frá landlækni, svo að dæmi sé tekið, en allar voru þær mjög jákvæðar og umsagnaraðilar vonuðust flestir til að þessi þingsályktunartillaga yrði samþykkt. Okkur í Samfylkingunni hefði fundist langbest ef Alþingi hefði getað hugsað sér að samþykkja að fela ríkisstjórninni að fara í aðgerðaáætlun sem væri tímasett og fjármögnuð og tæki á öllum helstu athugasemdum sem fram hafa komið bæði innan lands, frá embættum eins og umboðsmanni barna en líka frá Sameinuðu þjóðunum og nefndum Evrópuráðsins. Það var hins vegar ekki gert.

Það sem er næstbest er einmitt það sem hv. velferðarnefnd gerir, að vísa tillögunni til ríkisstjórnarinnar. Ég er sannarlega ánægð með að þessi tillaga detti ekki dauð niður og sofni í nefnd heldur komist a.m.k. út úr nefndinni þó að það sé á þennan hátt. Það er auðvitað þannig að sumt af því sem er í tillögunni skarast við það sem verið er að vinna, annað ekki, þannig að tillagan er sannarlega viðbót við það sem ríkisstjórnin og ráðherra barnamála hefur verið að vinna að. Það er samt svolítið ruglingslegt af því að það var bara í síðustu viku sem hæstv. barnamálaráðherra mælti fyrir máli um að gera áætlanir í barnavernd. Á sama tíma er stór pólitísk nefnd að vinna að málefnum barna. Hún hefur ekki lokið sínum störfum. Maður veit ekki alveg á hvaða vígstöðvum lokaafurðin verður en vonandi fáum við að taka myndarlega á málefnum barna innan skamms á þingi. Ég efast um að það verði á þessu löggjafarþingi en vonandi á því næsta, af því að nú er stutt eftir, fáir dagar eftir geri ég ráð fyrir.

Forseti. Mig langar aðeins að renna yfir helstu atriði þeirrar þingsályktunartillögu sem nú er verið að vísa til ríkisstjórnarinnar. Verði sú tillaga samþykkt sem hv. velferðarnefnd leggur til er það þingið sem felur ríkisstjórninni að notast við þær tillögur og nýta þær inn í áætlanir sínar eins og við á.

Þessi þingsályktunartillaga er í sjö köflum og I. kaflinn varðar aðgerðir sem bæta afkomu barnafjölskyldna. Þar er talað um barnabætur, að viðmiðin hækki og að fleiri fjölskyldur fái barnabætur. Það er talað um stöðu nemenda í framhaldsskólum, að þeir njóti stuðnings við kaup á bókum og öðrum námsgögnum og fái hádegisverðinn niðurgreiddan, þeir sem eru undir 18 ára aldri. Það er talað um að stuðningur við umgengnisforeldra verði meiri en nú er og síðan að stjórnvöld safni upplýsingum um hag barna og þjónustu við þau og noti þær til að tryggja réttindi og velferð allra barna, að upplýsingarnar verði greindar eftir aldri, kyni, búsetu og félagslegum bakgrunni. Eftir að þingsályktunartillagan var lögð fram lagði hæstv. forsætisráðherra fram breytingar á hlutverki umboðsmanns barna þar sem umboðsmanni barna var m.a. falið að afla slíkra upplýsinga. Ég fagna því en segi þetta hér til að benda á að ýmislegt skarast við það sem stjórnvöld eru að gera en annað ekki.

Eitt af því sem skarast er 1. liðurinn í II. kafla, um aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðningur í uppeldisstarfi: Fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði. Þetta er á stefnuskrá, þetta tengdist kjarasamningum og verður vonandi að raunveruleika innan tíðar. Meðal þess sem talað er um í II. kafla er að tryggt verði að börn, fullorðið fólk, stofnanir og fagstéttir sem fást við málefni barna fái góða og markvissa fræðslu um barnasáttmálann og þær kröfur sem hann gerir. Í námi starfsstétta verði gert ráð fyrir fræðslu um barnasáttmálann. Opinberir aðilar nýti sér barnasáttmálann til að tryggja réttindi barna í störfum sínum og framkvæmi mat á hagsmunum barna þegar taka á ákvarðanir sem snerta börn. Ég held að það sé afar mikilvægt að t.d. hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fái reglulega upprifjun á því hvað stendur í barnasáttmálanum vegna þess að við höfum lögfest hann og með því höfum við lofað að í öllum lögum sem við samþykkjum tökum við mið af hag barna, í öllu sem við samþykkjum í þessum sal. Ég vona sannarlega að það sé alltaf brýnt og skoðað út frá sjónarhóli barna, hvert einasta mál, en mig grunar að svo sé ekki alltaf. Við hv. þingmenn þurfum að passa það að hagur barna sé ávallt fremstur, eins og við erum búin að lofa að gera með barnasáttmálanum og lögfestingu hans.

5. tillagan í II. kafla er að dómstólar og sýslumenn virði rétt barna til að tjá sig áður en teknar eru eða endurmetnar ákvarðanir um forsjá, umgengni eða búsetu, óháð því hvort deilur eru á milli foreldra eða ekki.

6. tillagan er að sifjadeildir sýslumannsembættanna verði efldar þannig að þær geti sinnt betur lögbundnum skyldum sínum um flýtimeðferðir í málefnum sem varða börn þannig að t.d. umgengnismál fái hraða meðferð.

7. tillagan er að komið verði á fót barnahúsi sem vinni með börnum foreldra sem eiga í forsjárdeilum, búa við heimilisofbeldi eða leita eftir alþjóðlegri vernd og þar sem jafnframt verði boðið upp á barnamiðaða fjölskylduráðgjöf.

Sú tillaga er viðbót við það sem Barnahúsið, með B, sem við eigum og er starfandi er að gera.

Síðan kemur III. kafli í tillögunni sem er um forvarnir og þar stendur m.a. að beitt verði forvörnum í vaxandi mæli til að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna, að tryggt verði greitt aðgengi allra barna að sálfræðiþjónustu, bæði í skólum og heilsugæslum um allt land, ásamt því að kynnt verði fyrir börnum sérstaklega sú þjónusta sem í boði er og þær reglur sem gilda, svo sem um rétt barna til trúnaðarsamskipta.

Við höfum verið að ræða í þessum sal að þetta sé nauðsynlegt og þarna er gengið aðeins lengra kannski en við höfum verið að tala um. Svo segir að lokum að fötluðum börnum verði tryggður allur nauðsynlegur stuðningur og þjónusta og þau efld og styrkt til virkni. Eigi síðar en á árinu 2019 verði samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögfestur. Það getur orðið þannig að hér er ýmislegt sem við getum unnið að þó að við samþykkjum ekki þingsályktunartillöguna í heild sinni.

Í IV. kafla er talað um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna. Þar er lögð mest áhersla á að stytta biðtímann eftir aðstoð sem er allt of langur og á ekki að líðast og er einnig talað um hvernig auka megi eftirfylgni þegar börnin hafa farið í meðferð.

Í V. kafla er talað um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og vímuefnavanda. Þar er sérstaklega talað um fjölbreytni meðferðarúrræða og að reynt sé að mæta börnunum þar sem þau eru. Það þarf þá ýmiss konar úrræði sem henta hverjum og einum til að leysa úr oft og tíðum flóknum vanda.

Í VI. kafla er talað um aðgerðir er vernda börn og ungmenni gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum. Þetta er ákaflega mikilvægur kafli, eins og þeir eru reyndar allir sjö, en þarna eru aðgerðir sem ég hef ekki séð áður á prenti en koma vonandi til framkvæmda sem allra fyrst.

Í 1. lið er talað um að forvarnastarf gegn kynferðisofbeldi, þar með talið barnaklámi, verði eflt. Aðgerðaáætlunin taki einkum til barna og ungmenna í áhættuhópum, t.d. vegna fötlunar, og þeirra sem dveljast á stofnunum eða búa við veika félagslega stöðu

Í 2. lið er talað um að barnavernd verði efld þannig að málafjöldi á hvern barnaverndarstarfsmann verði ásættanlegur og að börn geti alltaf hringt eða sent skilaboð til barnaverndarstarfsmanns á vakt.

Í 3. lið er talað um að tilkynningarskylda þeirra sem starfa með börnum og tilkynningarskylda almennings verði kynnt og skref tekin í þá átt að starfsfólk stofnana geti tilkynnt nafnlaust grun um ofbeldi gegn barni.

Í 4. lið er talað um að komið verði á virkri löggæslu á netinu. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt mál. Sérfræðingar þyrftu að finna út úr því hvernig hægt er að koma því við til að vernda börn.

Í 5. lið er talað um að teknar verði til skoðunar lagaheimildir svo að gera megi öryggisráðstafanir eftir afplánun refsidóma gagnvart kynferðisafbrotamönnum með barnagirnd á háu stigi, þar með talið vöktun og aðrar eftirlitsráðstafanir.

Í 6. lið er talað um að unnið verði að markvissri íhlutun í málum ungra gerenda og meðferðarúrræðum fyrir þann hóp, m.a. með samvinnu réttarvörslukerfisins og barnaverndaryfirvalda.

Í 7. lið er talað um að starfsemi Barnahúss verði styrkt sem þverfagleg miðstöð vegna kynferðisbrota gegn börnum, einkum að því er varðar skýrslutöku og faglega meðferð barna alveg til 18 ára aldurs. Það þarf að vera alveg til 18 ára aldurs, ekki 15 eða 16 ára, á meðan börn eru börn eiga þau að fá þá aðstoð. Meðferð fyrir fjölskyldur þar sem hvers kyns ofbeldi hefur verið beitt verði í boði í Barnahúsi.

Í 8. lið er talað um að komið verði á virkri teymisvinnu barnaverndarnefnda, lögreglu og heilsugæslu um allt land um hvers konar ofbeldi gegn börnum. Svona tilraun hefur verið gerð. Að hluta til var teymisvinna virk á Suðurnesjum fyrir nokkrum árum. Mér er sagt að í Hafnarfirði sé verið að stíga slík skref. Það er afskaplega mikilvægt að barnavernd, lögreglan og heilsugæsla tali vel saman um málefni barna og hjálpist að.

Í 9. lið er að lokum talað um að komið verði á miðlægu landsvöktunarkerfi þannig að tryggt verði að gripið verði strax til aðgerða ef grunur er um að barn verði fyrir ofbeldi. Þannig verði t.d. safnað upplýsingum á sama stað frá heilsugæslustöðvum, skólum og lögreglu og komið í veg fyrir að flakkað sé með börn á milli sveitarfélaga til að komast hjá aðgerðum til verndar þeim. Þetta er mjög mikilvægt atriði en það þýðir að búa þarf til kerfi sem gerir kleift að reisa upp flögg þegar grunur kemur einhvers staðar upp og þá verði strax gripið til aðgerða.

Persónuvernd sendi inn umsögn um þessa þingsályktunartillögu og sagði að það væri ekkert í henni sem kæmi henni við eða hún þyrfti að gera athugasemdir við. Ég túlka það þannig að í lagi sé að búa til svona kerfi og þá ættum við auðvitað að gera það.

Í VII. og síðasta kafla er talað um aðgerðir í þágu barna innflytjenda. Það er talað um þjálfun og móttöku í skólum og atvinnulífinu og að samfélagið allt standi saman í baráttu gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum með sérstakri aðgerðaáætlun. Það sem mig langar sérstaklega að nefna í því er að skólarnir eru með ákveðin hlutverk og margir skólar standa sig afskaplega vel. Brottfall barna af erlendum uppruna úr framhaldsskólunum hefur hins vegar verið afskaplega og óásættanlega mikið og framhaldsskólarnir verða að taka sig á hvað það varðar. En þar sem ég held að við stöndum afskaplega höllum fæti er þegar við tökum á móti börnum á flótta. Hér eru 13 tillögur í þágu barna innflytjenda og nr. 12 er: Þegar tekið er á móti börnum og fjölskyldum í leit að alþjóðlegri vernd verði börnum tryggð sérstök hagsmunagæsla og réttur þeirra virtur, m.a. til menntunar og heilbrigðisþjónustu og til að leika sér, fá upplýsingar um eigin stöðu og hafa áhrif á eigið líf.

13. tillagan er: Stjórnvöld sjái til þess að börn séu aldrei sett í hættulegar aðstæður og að ákvarðanir um brottvísun og veitingu dvalarleyfis séu teknar með það í huga sem er börnum fyrir bestu.

Forseti. Ég hef stiklað á stóru. Ég hef auðvitað ekki farið ofan í hverja einustu tillögu, þær eru 49, en auðvelt er að lesa sér til í greinargerð um alla kaflana. Eins og ég sagði áðan gerðist það næstbesta. Ég hef verið í áratug á þingi og veit að svona viðamiklar þingmannatillögur renna ekki í gegnum þingið. Meiri hlutinn vill hafa fingraför sín á málinu og það er allt í lagi ef alveg tryggt er að þessi ríkisstjórn muni taka á málefnum barna, sérstaklega viðkvæmum hópum, og ekki aðeins efnahagslega og félagslega og passa upp á ofbeldið o.s.frv., heldur þarf líka að horfa á börn sem eru vanrækt. Það versta í uppeldinu sem hefur flestar aukaverkanirnar er vanræksla, auðvitað á eftir hryllilegu ofbeldi en ég er að tala um daglegt líf barna.

Ég vona að ríkisstjórnin taki tillöguna og geri hana að raunveruleika, ekki fyrir Samfylkinguna heldur fyrir börnin á Íslandi.