149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[14:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Fínasta tillaga og mjög gott að þessi mál séu í vinnslu. En það er ýmislegt annað sem við getum gert til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Fyrir þinginu liggja ansi margar tillögur í þeim efnum.

Til að byrja má með má nefna frumvarp hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar um að færa kosningaaldur niður í 16 ára aldur sem kláraðist ekki alveg á síðasta þingi, endaði einhvers staðar í miðri 3. umr., sem er mjög merkilegt. Núna situr málið í nefnd. Það var búið að afgreiða nákvæmlega sama mál út úr nefnd á síðasta þingi og ég skil ekki alveg af hverju málið er ekki komið strax inn í þingið aftur þannig að við gætum alla vega klárað það í þetta skipti, ekki látið það daga uppi einhvers staðar í miðri 3. umr. Þetta er eitt sem Alþingi gæti gert núna til þess að bæta stöðu barna og ungmenna.

Annað er þingsályktunartillaga sem liggur fyrir þinginu um þriðju valfrjálsu bókun við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það mál snýst um að skilgreina samskipta- og kæruleið fyrir börn. Bókunin gerir börnum og fulltrúum þeirra kleift að áfrýja sérstökum málum til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna — sömu barnaréttarnefndar og við erum rosalega stolt af því að hafa fulltrúa í, á einhverjum forsendum alla vega. En samt erum við ekki tilbúin til að gangast undir það að börn og ungmenni á Íslandi geti sent sín mál til þessarar nefndar sem við erum með fulltrúa í. Hvers konar bull er það, hæstv. forseti?

Aftur: Það er ýmislegt sem við getum gert. Enn eitt sem liggur fyrir þinginu er þingsályktunatillaga um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum. Það er nefnilega óþolandi að það þurfi að bíða eftir hinu opinbera í úrvinnslu þessara mála. Um það snýst sú þingsályktun. Að það sé gætt að góðri stjórnsýslu þannig að biðtími í þessum viðkvæmu málum, eftir að hið opinbera geri það sem er rétt og gott til þess að vernda rétt barna, er óþolandi. Það er óþolandi að það þurfi að vera óþarfur biðtími þar á.

Síðast en ekki síst mætti minnast á mótmælin sem eru hér fyrir utan Alþingishúsið á hverjum föstudegi og hafa verið undanfarnar vikur, þar sem börn og ungmenni koma og hvetja okkur til að huga að því sem ég held að styrki stöðu barna og ungmenna til framtíðar einna mest — að jörðinni sem við búum á sé skilað í viðunandi ástandi til næstu kynslóða. Við þurfum að hlusta á þessi mótmæli. Við þurfum að hlusta á þessar raddir og við þurfum að gera eitthvað. Jú, það eru nokkrir milljarðar settir á næstu fimm árum í fjármálaáætlun til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Það er mjög óljóst hvaða árangri sú aðgerðaáætlun mun ná. Það er mjög óljóst hvort þar sé lagður fram réttur kostnaður við aðgerðir. Það er allt mjög óljóst í þessu og það á tímum þar sem ýmis lönd víðs vegar um heim eru farin að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, út af nákvæmlega þessum mótmælum sem fara fram víða um heiminn. Því að þar er fólk að hlusta.

Hérna erum við að vísa máli til ríkisstjórnar til þess að hún geti haldið áfram vinnunni sem er í gangi, í staðinn fyrir að klára a.m.k. þau mál sem liggja fyrir þinginu. Í staðinn fyrir að hlusta og bregðast við þeim varnaðarorðum sem framtíðarkynslóð sendir okkur þingmönnum.