149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[14:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég vitni í auglýsingu sem var með börnum í aðalhlutverki: Bæði betra. Þessi tímasetta áætlun, fjármagnaða áætlun, það er bara fjármálaáætlun og ekkert að finna um þetta í henni, því miður. Vandamálið sem er lagt upp með með þessari tillögu er einmitt vandamál sem mætti vera tæklað í fjármálaáætlun með tímasettum aðgerðum, með fjármagni.

Að sjálfsögðu er mjög fínt, eins og með fjarskiptaáætlun og samgönguáætlun og annað svoleiðis, að hafa sérstaka áætlun sem er yfirgripsmeiri og fer betur og nákvæmar yfir hverja aðgerð fyrir sig og kannski til lengri tíma til viðbótar, eins og lagt er til. En það á auðvitað að vera í fjármálaáætlun. Ég hef ekkert á móti því að sett sé fram svona stefna, tímasett, aðgerðasett, ábatasett, ávinningssett og fjármögnuð. Ég hef heldur ekkert á móti því að við klárum einstaka mál sem hafa meira að segja komist langt inn í 3. umr. og eru einhverra hluta vegna enn þá lokuð inni í nefnd á þessu þingi þrátt fyrir að hafa nánast klárast á síðasta þingi.