149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[14:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta rímar mjög vel við þriðju valfrjálsu bókun við barnasáttmálann, af því að við fáum þegar ábendingar frá barnaréttarnefnd. Við fáum einnig þegar ábendingar frá sambærilegri nefnd innan Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg-, félagsleg- og menningarleg réttindi, sem er líka þingsályktunartillaga sem liggur fyrir þinginu og í nefnd og kemst ekki úr nefnd af því að einhverjir vilja ekki fá hana út úr nefnd o.s.frv. Þetta eru nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna sem senda okkur ábendingar en við neitum að innleiða bókanirnar þannig að íslenskir ríkisborgarar geti sent ábendingar til nefndanna. Það eina sem gerist þá er að við fáum ábendingar frá þeim nefndum, sem fáum þegar hvort sem er. Að við skulum ekki geta klárað bæði efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindin og hvað þá þriðju valfrjálsu bókun við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna upp á barnaréttarnefndina sem við erum með fulltrúa í. Þótt að við séum með fulltrúa í nefndinni getum við ekki klárað að veita borgurum okkar þau réttindi að geta sent mál til hennar.

Þetta er kjarninn, held ég, í því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir við að styrkja stöðu barna og ungmenna á Íslandi. Við neitum meira að segja eigin borgurum um þau réttindi sem við stærum okkur af að vera aðilar að með fulltrúa í nefndinni. Afsakið, en mér finnst það ákveðin hræsni að geta ekki klárað þetta sómasamlega og veitt fólki réttindin sem við sinnum þegar. Við fáum þegar ábendingar frá þessum nefndum en leyfum ekki að borgarar okkar og börn og ungmenni geti leitað til þeirra. Það er tvímælalaust þörf á þessari tillögu.