150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég myndi vilja svara þessu þannig að þegar við erum að bregðast við brýnum aðkallandi vanda sé mikilvægast að reyna að vinna sig út úr þeim vanda. Það sem á okkur brennur núna hefur ekkert með stjórnarskrána að gera. Það sem brennur á okkur núna hefur ekkert með Evrópusambandsaðild að gera, bara svo dæmi sé tekið, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þess vegna held ég að deilur um þau efni á vettvangi stjórnmálanna, sem við vitum að koma upp ef menn reyna að keyra fram sína ýtrustu stefnu í þeim efnum, verði til þess að draga orku, tíma og athygli stjórnmálamanna frá þeim viðfangsefnum sem raunverulega eru brýn. Það er mitt viðhorf í þessum efnum. Ég held að þegar við erum að reyna að endurreisa efnahaginn eigum við að velta fyrir okkur hvernig við getum gert það með bestum hætti, hvernig við getum náð hjólunum aftur í gang, hvernig við getum komið fólki í vinnu sem hefur tugþúsundum saman misst vinnu á undanförnum vikum. Það er brýnt. Það er ekki brýnt að ræða stjórnarskrárbreytingar eða aðild að Evrópusambandinu. Ég held að reynslan frá árunum 2009–2013 ætti að kenna okkur að við eigum ekki að eyða orkunni í deilur af því tagi þegar við getum verið að vinna að raunverulegum úrbótum, raunverulegum framfaramálum sem skila efnahagslegum bata fyrir þjóðfélagið.