Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Í síðustu kosningum til Alþingis og sveitarstjórna tók ég að mér að vera umboðsmaður lista. Nú bar svo við að við síðustu kosningar til Alþingis fór talning misvel fram og sérstaklega var talningu í Norðvesturkjördæmi ábótavant, það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum. Þegar ljóst var að enginn þeirra aðila sem tekið höfðu ábyrgð á ferlinu þyrfti með neinum hætti að axla niðurstöðuna sendi ég inn kæru sem m.a. var lögð fram á grundvelli 124. gr. þágildandi kosningalaga, með leyfi forseta:

„Það varðar sektum ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana.“

Þarna er ljóst að vanræksla er einnig refsiverð. Í þeim svörum sem bárust við kærum og áfrýjunum er hvergi vísað til þessa ákvæðis heldur annarra ákvæða sem fyrst og fremst fjalla um háttsemi almennra borgara, ekki embættismanna, þrátt fyrir að ég hafi sérstaklega óskað þess að ríkissaksóknari viki að þeim þætti. Því sendi ég fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra og spurði út í þetta aðgerðaleysi. Af svarinu má ráða að ráðherra sjái ekki í hverju aðgerðaleysið felst. Ég vil því nota tækifærið og upplýsa ráðherra um að aðgerðaleysið felst í því að hunsa kvartanir umboðsmanna án nokkurs rökstuðnings. Ef umboðsmenn hafa engar leiðir til að fylgja því eftir hvort framkvæmd kosninga sé rétt og í samræmi við lög, til hvers erum við þá með eftirlit yfir höfuð?