Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir gott andsvar og við deilum þessari skoðun svo langt sem frumvarpið nær. Það er sannarlega tilefni til breytinga á þessu. Í Danmörku er ekki gerð krafa um það í lögum að þeir einstaklingar sem standa að tæknifrjóvgun séu í sambúð eða hjúskap. Löggjafinn hefur í raun látið fólki það eftir að ákveða sjálft hvenær tengsl þess við annan einstakling séu slík að þau teljist par. Þau hugtök eru ekki notuð í lögunum sem jafnan ná til hjúskapar eða sambúðar. Markmiðið með breytingu laganna hér er að breyta þjónustu heilbrigðiskerfisins hvað varðar meðferð fósturvísa til samræmis við ráðandi viðhorf til þessara mála. Ég held að það muni alveg örugglega koma til kasta nefndarinnar að fjalla um þessi mál. Í greinargerð með frumvarpinu (Forseti hringir.) er dregið saman hvernig þetta er ólíkt milli þjóða — ég næ ekki lengra í þessu andsvari.