Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:44]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja þetta mál fram, þetta mikilvæga mál, og að það sé hér til umræðu í dag. Um er að ræða breytingar sem einfaldlega verða að ná fram að ganga til hagsbóta fyrir fjölmargar fjölskyldur og einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Fjölskyldan er eitt það dýrmætasta sem maður eignast og ríkið á að kappkosta að þvælast ekki í vegi fyrir þeim sem þurfa aðstoð til þess að eignast börn. Það er mér bæði ljúft og skylt að vekja athygli á því, líkt og hv. þm. Óli Björn Kárason gerði, að fyrir Alþingi liggur frumvarp hv. þm. Hildar Sverrisdóttur um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna og á barnalögum. Ég vek sérstaka athygli á því að meðflutningsmenn frumvarps hv. þingmanns eru þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi. Tillögur frumvarpsins fela í sér einföldun regluverks er snýr að tæknifrjóvgunum ásamt auknu frelsi og trausti til handa tilvonandi foreldrum sem þurfa að nýta sér tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að eignast barn og búa til fjölskyldu. Markmiðið er einfalt, að draga úr miðstýringu stjórnvalda þegar kemur að þessum þætti í lífi fólks og auka svigrúm til þess að búa til nýtt líf. Það sem málin eiga sammerkt er í fyrsta lagi sú meginbreyting að ekki verði lengur gerð skýlaus, ómannúðleg og undantekningarlaus krafa um að fósturvísa megi ekki nota eftir slit á sambúð, hjónabandi eða vegna andláts. Segja má að þingmannafrumvarpið gangi lengra en frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er mikilvægt að lögum sé ekki stýrt af gamalgrónum hugsunum og ímyndum um hvað fjölskyldulíf er. Þingmannafrumvarpið gerir m.a. ráð fyrir auknum heimildum til að geyma og gefa fósturvísa en eins og er má einungis gefa sæði og gefa egg en ekki tilbúna fósturvísa. En tilbúnir fósturvísar geta reynst afar dýrmæt gjöf. Í þingmannafrumvarpinu er sleginn sá varnagli að ekki verði heimilt að gefa fósturvísa í hagnaðarskyni. Eins er lagt til að sambúð eða hjúskapur verði ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingar geti staðið saman að tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að búa til barn.

Ég legg áherslu á að málin verði unnin samhliða í velferðarnefnd og tekið verði tillit til þeirra þátta sem ekki eru samhljóða í þessum frumvörpum. Í báðum tilvikum voru málin vel unnin með hliðsjón af þeirri löggjöf sem er í gildi í öðrum löndum í kringum okkur. Það er mjög jákvætt að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra taki vel í það að málin verði unnin samhliða og þau muni styðja vel hvort við annað í vinnu nefndarinnar í ljósi þess hve mikil og sterk þverpólitísk samstaða er í þinginu.

Að lokum vil ég fá að ítreka sérstaklega að það er gríðarlega mikilvægt að þessar breytingar á löggjöfinni verði að veruleika. Um er að ræða mikilvæga réttarbót fyrir þá fjölmörgu einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa aðstoð þessa ferlis við að búa til nýtt líf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)