153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

vopnalög.

946. mál
[20:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Hæstv. Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um skotvopn. Breytingarnar varða einkum skráningu, vörslur og eftirlit með skotvopnum en með frumvarpinu er jafnframt lagt til að innleidd verði ákvæði úr tilskipun Evrópuráðsins og þingsins nr. 2021/555 um eftirlit með öflun og eign skotvopna. Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að ákveðnar takmarkanir verði gerðar á innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum, með því að fella á brott úr lögunum undanþáguákvæði sem heimilað hefur innflutning á slíkum vopnum á grundvelli þess að um safnvopn sé að ræða.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra voru 46 hálfsjálfvirk og sjálfvirk vopn sem teljast til safnvopna flutt til landsins árið 2018 á grundvelli framangreinds undanþáguákvæðis. Til samanburðar má benda á að engin slík vopn voru flutt inn hingað til lands á árunum 2012 til 2017. Frá ársbyrjun 2019 hefur slíkum vopnum fjölgað enn frekar og frá þeim tíma og til loka árs 2021 voru alls 1.358 vopn af þessu tagi flutt til landsins. Það er ljóst að við þessu þarf að bregðast. Nokkrar leiðir voru skoðaðar í því samhengi, en ákveðið var í ljósi þessarar stöðu að taka fyrir frekari innflutning þessara vopna. Með frumvarpi þessu er einnig lagt til að skerpt verði á skilyrðum til þess að eiga slík skotvopn sem og lögð áhersla á að tryggja vörslur þessara vopna með enn ríkari hætti en hingað til hefur verið krafa um. Þess má einnig geta að í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá árinu 2021 um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum er bent á að hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum hafi fjölgað á Íslandi undanfarin ár og var því beint til dómsmálaráðherra að taka regluverk á þessu sviði til skoðunar.

Í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins er lagt til að ákveðnar skilgreiningar verði lögfestar en í ljós kom við skoðun á tilskipuninni, sem kveður m.a. á um bættar merkingar og skráningu skotvopna og fylgihluta þeirra, að ákveðnar skilgreiningar vantaði í löggjöfina og er því lagt til með frumvarpinu að úr því verði bætt.

Þá er með frumvarpinu lagt til að öll skotvopn skuli geymd í sérútbúnum vopnaskáp og að allir sem eigi skotvopn skuli hafa yfir slíkum skáp að ráða. Er með þessu brugðist við aðgerðaáætlun um fækkun sjálfsvíga á Íslandi frá árinu 2018, en það er jafnframt mat þeirra sem starfa við þennan málaflokk að algengast sé að skotvopnum sé stolið eða þau komist í rangar hendur þegar þau eru ekki geymd í vopnaskáp.

Nánari yfirferð yfir lögin leiddi svo af sér fleiri breytingar. Þannig er lagt til að umbætur verði gerðar hvað varðar ákvæði laganna um skráningar skotvopna og fylgihluta þeirra. Með frumvarpinu er lagt til að öll skráning skotvopna verði á þann veg að alltaf sé ljóst hvaða einstaklingur sé skráður eigandi eða ábyrgðaraðili hvers skotvopns og að enginn geti haft yfir að ráða skotvopnum nema að hafa skotvopnaleyfi. Það gerir eftirlit með skotvopnum auðveldara og skýrari ákvæði um skráningar og krafan um að allir skuli hafa yfir vopnaskáp að ráða dregur úr líkum á því að skotvopn séu í geymslu hjá einstaklingi sem ekki hefur skotvopnaleyfi, t.d. vegna þess að leyfi hans hefur verið afturkallað.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að styrkja stoðir reglugerðarinnar um skotvopn, skotfæri, o.fl. en einnig er lagt til að sumt sem áður hefur verið í reglugerð verði nú kveðið á um í lögum. Sem dæmi um það er lagt til að ákvæði um flokka skotvopna og nánari skilyrði fyrir hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til að fá skotvopnaleyfi eða eignast ákveðnar gerðir skotvopna verði færðar í lögin. Þá er lagt til að heimildir lögreglu til þess að hafa eftirlit með skotvopnum og fylgihlutum þeirra verði styrktar með því að færa ákvæði um slíkt eftirlit úr reglugerð yfir í lögin.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að færa útflutningseftirlit með hergögnum í vopnalög í stað laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Þá eru með frumvarpinu gerðar nauðsynlegar breytingar á erfðalögum og lögum um skipti á dánarbúum vegna breytinga um að skotvopn í eigu dánarbúa skuli án tafar færð í vörslur einstaklinga sem hafa leyfi til að eiga slík vopn.

Frumvarp þetta var unnið í dómsmálaráðuneytinu í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og fleiri embætti lögreglustjóra á landinu. Þá var frumvarpið jafnframt birt í samráðsgátt stjórnvalda 28. febrúar 2023 og almenningi gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar og auk þess var sérstakt samráð haft við tiltekna haghafa, einkum Skotíþróttasambandið og Skotveiðifélagið.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessarar umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.