153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

vopnalög.

946. mál
[20:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er sérstakur áhugamaður um bogfimi og var með frumvarp sem þingmenn allra þingflokka voru flutningsmenn með mér á. Vandinn er sá að eins og er, samkvæmt núgildandi 31. gr. laganna, þá má barn yngra en 16 ára ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar. Breytingin sem ég legg til er að bæta við: „nema til æfinga og keppni undir eftirliti lögráða einstaklinga“. Það að núna má barn yngra en 16 ára ekki vera með boga sem er þyngri en 7 kg gerir að verkum að börn sem eru að æfa t.d. fyrir keppni á Norðurlandamótum eða eitthvað því um líkt geta ekki æft með keppnisboga. Sama og kannski meira vandamál er að ef Ísland ætlar t.d. að halda bogfimikeppni þá mega erlendir aðilar sem koma hingað, og mega nota boga sem er 7 kg eða þyngri, ekki nota slíka boga og geta þar af leiðandi ekki keppt með boganum sem þeir eru búnir að æfa með. Ég var að velta því fyrir mér, svona fyrst að þetta frumvarp mitt var með meðflutningi allra flokka á þingi á síðasta kjörtímabili, ég hef ekki lagt það fram aftur á þessu kjörtímabili, hvort kannski væri séns að læða þessari breytingu inn í þetta frumvarp til breytinga á vopnalögum, til þess að ná ákveðnu samræmi í framhaldinu.