135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:41]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að upplýsa hæstv. fjármálaráðherra um eftirfarandi: Á velferðarstofnunum er starfsmannavelta mikil, sérstaklega hjá lægstlaunaða, ófaglærða hópnum. Erlendir starfsmenn hafa smám saman fyllt þau störf sem þurft hefur að manna og hefur hlutfall þeirra farið yfir helming á viðkomandi stofnunum og orðið hærra á einstökum vöktum. Þessir erlendu starfsmenn hafa bjargað því að ekki hefur komið til lokunar eða verulegs samdráttar á mörgum stofnunum. Þó að allt sé gott um þessa starfsmenn að segja hafa þeir ekki allir náð tökum á íslenskunni og veldur það álagi og samskiptaleysi við þá sem þeir eiga að annast eða þjóna. Þetta er staðreynd sem verður að horfast í augu við, hliðarverkun á láglaunastefnu ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forseti. Ég lýsi miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. fjármálaráðherra og svör hans við þeim spurningum sem ég varpaði hér fram. Hæstv. fjármálaráðherra virðist trúa á að markaðslögmálið bjargi hér öllu. Hann nefndi ekki einu einasta orði og kom ekki neitt inn á ríkisstjórnarsamþykktina um að hækka laun kvenna og draga úr kynbundnum launamun. Hann vísaði í engu til komandi kjarasamninga, hann vakti engar vonir um að bæta ætti kjör þessa fólks heldur nefndi eingöngu að launin væru ekki allt. Virðing felst í launum, launin endurspegla virðingu og það er virðingarleysi fyrir störfum þessa fólks sem hefur haft djúpstæð áhrif.

Ég vil, hæstv. forseti, beina því til ráðherra að það er kominn tími til að ráðherrar axli ábyrgð á rekstri og starfsumhverfi velferðarþjónustunnar, bæði faglega og rekstrarlega, og hætti að vísa hver á annan þegar vandamálin blasa við (Forseti hringir.) sem verður að leysa. Ég vil sérstaklega hvetja Samfylkinguna til að láta ekki Sjálfstæðisflokkinn draga sig inn í markaðslögmálin og treysta á fyrirsjáanlega kreppu (Forseti hringir.) í efnahagslífinu til að leysa þann vanda sem nú blasir við og mun verða til framtíðar ef ekki verður gripið inn í í kjarasamningum.