139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[14:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Málefni Íbúðalánasjóðs hafa verið mikið til umræðu síðustu daga, ekki hvað síst vegna þess að fyrirséðar afskriftir sjóðsins eru meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í þeirri umfjöllun hafa tölur verið nokkuð á reiki og því er gott að efnt er til þessarar umræðu í dag um stöðu sjóðsins svo færi gefist á að skýra stöðuna fyrir þingheimi.

Málshefjandi í þessari umræðu vekur athygli á ýmsum ástæðum sem hann telur vera fyrir vandamálum sjóðsins. Hann nefnir þar réttilega leigufélögin og að yfirtaka lána banka, það var að vísu fært niður með miklum afföllum yfir í bankana. En á sama tíma kvartar málshefjandi yfir því að það hefði átt að yfirtaka allt saman eins og raunar var skoðað á þeim tíma, hvort það væri rétt. Í staðinn fyrir að gera það að skyldu var það gert valkvætt og ekki nema lítill hluti af lánunum var færður yfir í bankana, svo það sé skýrt út.

Hér er líka rætt um 110%-leiðina og er ástæða til að fara aðeins yfir afleiðingar af þeirri leið eða hvernig hún nýtist. Íbúðalánasjóður hefur ekki farið varhluta af því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu, vanskilin hafa aukist hjá sjóðnum að undanförnu og stærstur hluti vanskilalána er hjá einstaklingum þótt vanskil hafi þó aukist hlutfallslega mest hjá leigufélögum.

Það er því öllum ljóst sem að þessum málum hafa komið að aðgerða var þörf. Í því samhengi vil ég jafnframt leggja áherslu á að verið er að hreinsa til í kerfinu í heild sem felur óhjákvæmilega í sér afskriftir lána hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Íbúðalánasjóður hefði alltaf lent í þeim afskriftum eins og aðrar lánastofnanir.

Íbúðalánasjóður og aðrir lánveitendur á íbúðamarkaði, auk stjórnmálamanna, hófu í fyrrahaust vinnu við að finna leiðir til að koma til móts við yfirveðsett heimili, eins og menn muna. Það skilaði sér í samkomulagi í desember sl. og síðan í verklagsreglum í janúar í framhaldi af því með 110%-leiðinni. Ég vona að við séum flest sammála um að það var nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður tæki þátt í þeim aðgerðum enda mikilvægt að koma til móts við yfirveðsett heimili, óháð því hvar þau tóku íbúðalán sín. Það kom líka fram í þeirri umræðu á þeim tíma að bankarnir sem voru í viðræðum við stjórnvöld og þá aðila sem þarna komu að máli að gerðu ríka kröfu um að þetta væru samstilltar aðgerðir þar sem allir aðilar kæmu að málum og þess vegna skipti mjög miklu máli að Íbúðalánasjóður væri þar með. Bankarnir fella niður líklega milli 80 og 100 milljarða í 110%-leiðinni sem skiptir auðvitað mjög miklu máli í þeim aðgerðum sem nú eru til þess að endurstilla okkur á húsnæðismarkaðnum og til að hjálpa fólki út úr þeim erfiðleikum sem það á við að etja.

Þegar þetta var ákveðið í desember, það er rétt að rifja það upp, var í raun ekki talin þörf á því að fara í neinar lagabreytingar vegna 110%-leiðarinnar einfaldlega vegna þess að það eru heimildir um afskriftir ef fyrirsjáanlegt er að menn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. En af því að verklagsreglurnar sem settar voru í janúar voru rýmkaðar þannig að ekki var tekið tillit til eða gerð krafa um tekjur — horfið var frá 18% tekjumarkinu varðandi niðurfærslur um 4–7 millj. kr. hjá einstaklingum annars vegar og hins vegar hjá hjónum eða sambýlisfólki — þótti eðlilegt, sjálfsagt og nauðsynlegt að setja það inn í lög að slík heimild væri fyrir hendi. Þess vegna erum við með það frumvarp sem nú er til umræðu í þinginu og hefur verið afgreitt úr félags- og tryggingamálanefnd til 3. umr.

Áætlað var að aðgerðirnar sem slíkar mundu kosta um 21,8 milljarða kr., eins og málshefjandi benti réttilega á. Þar af hefði sumt af því hvort sem er fallið á sjóðinn, en þar er um að ræða umtalsverða upphæð. En á móti fella bankarnir niður fjórfalt til fimmfalt þá upphæð þrátt fyrir að Íbúðalánasjóður sé með næstum 60% af markaðnum sem slíkur, það skiptir mjög miklu máli.

Það er svo hægt að deila um hversu vel það hittir á markhópinn þarna. Þetta er m.a. vegna þess að flest lán Íbúðalánasjóðs eru úti á landi, ekki á svokölluðum þenslusvæðum, en bankarnir lánuðu inn á þau svæði og aðgerðirnar komast auðvitað vel til skila á þeim svæðum.

Það sem kannski hefur þvælst í fjölmiðlum, og eðlilega, er hver afskriftaþörfin er hjá sjóðnum til lengri tíma. Það var samþykkt í fjáraukalögum fyrir árið 2010 að leggja sjóðnum til 33 milljarða til að tryggja eigið fé hans. Það kemur fram í frekari umfjöllun á vegum félags- og tryggingamálanefndar og í þinginu varðandi 110%-leiðina að það muni ekki duga að fullu. Það mun því miður ekki liggja fyrir fyrr en seinna á árinu hversu mikla upphæð þarf til að standa þétt á bak við sjóðinn því að auðvitað er það ætlun stjórnvalda að tryggja að sjóðurinn lifi og geti gegnt áfram hlutverki sínu. Við munum kannski fá tækifæri í lok umræðunnar til að fara betur yfir hverjar heildarafskriftirnar gætu orðið, en þar hafa verið nefndar allt of háar tölur. Ég held að það sé rétt sem málshefjandi nefndi að það gæti í mesta lagi verið í kringum 48 milljarða, en það verður að koma í ljós þegar búið er að fara yfir lánasafnið og sjá hvernig almennu aðgerðirnar sem núna er verið að vinna að munu hafa áhrif á lánasafn Íbúðalánasjóðs.