140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að geyma mér það að segja hversu mikið til bóta þetta frumvarp er. Ég hef hins vegar haft áhyggjur af því lengi hvað verði um sparisjóðakerfið á Íslandi, því að þetta kerfi allt eða sjóðir eru í dag og hafa vitanlega verið gríðarlega mikilvægir, ekki síst landsbyggðinni þar sem þetta hafa jafnvel verið einu fjármálastofnanirnar sem stór svæði hafa haft aðgang að, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Mig langar að spyrja hæstv. talsmann þessa máls um rekstrarformið. Þarna er talað um sameignarfélag og hlutafélag. Ég er ekki viss hvort ég heyrði eða skildi orð ráðherra rétt en útilokar þetta að sparisjóður geti til dæmis verið samvinnufélag? Að það rekstrarform geti einnig verið um sparisjóði? Ef svo er held ég að við séum á kolrangri braut, algjörlega kolrangri braut. Þá þarf að gera breytingar á frumvarpinu til að það rekstrarform geti einnig verið til staðar.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að það er vitanlega margt líkt með hinu gamla fyrirkomulagi sem var á sparisjóðunum og samvinnufélögunum. Ég held að það sé því mjög við hæfi að gera mönnum kleift að fara þá leið ef þeir kjósa svo, ekki síst af því að verið er að heimila hlutafélagabreytingu þarna. Þetta er sú meginspurning sem mig langaði að beina til ráðherra.

Einnig er mikilvægt að það komist til skila til þeirra sem starfa í sparisjóðum í dag, og þeirra sem sjá fyrir sér að sparsjóðirnir geti vaxið, hver raunverulegur vilji stjórnvalda er. Nú eru þrjú ár liðin frá því að núverandi stjórnvöld tóku við, sú ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem nú situr, og mér finnst vanta svolítið skarpari sýn á hvað þau vilja með sparisjóðina.