140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu enda brestur mig tæknilegt vit á þeim flóknu atriðum sem fjallað er um í frumvarpinu en er kominn til að þakka fyrir hversu vel virðist vera að þessu staðið, þakka hæstv. velferðarráðherra og þeirri nefnd sem að þessu vann undir forustu Laufeyjar Helgu Guðmundsdóttur. Ber þá líka að þakka ríkisstjórninni sem gerði þann stjórnarsáttmála eða gaf út þá samstarfsyfirlýsingu þar sem þetta var boðað. Þá má ekki vanta þá ágætu hv. þingmenn sem báru fram þingsályktunartillögu árið 2009 undir forustu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Það er athyglisvert að í þeim hópi voru þingmenn úr öllum þingflokkum sem þá og nú, eða að minnsta kosti þá af því að þeim hefur fjölgað síðan, eru á þinginu. Því má vænta fullrar samstöðu um þetta.

Það er líka partur af sögu málsins að settur umboðsmaður, að ég hygg Róbert Spanó, er ég nú ekki að þakka honum því að hann vinnur bara sitt verk, skilaði áliti árið 2009 einmitt um tiltekið mál sem kært var og það álit á líka þátt í því hvernig þetta frumvarp er flutt núna. Evrópuráðsþingmaður, einn af þremur héðan úr Alþingi, minnist á það líka að þetta er gert á grunni samþykktar frá Evrópuráðinu árið 2010 og sýnir hvað það ráð — þótt lítið sé um það fjallað, allt of lítið og allt of lítið unnið úr ályktunum þess og samþykktum og því merka rannsóknastarfi sem lagt er fram — á við okkur erindi eins og allar aðrar 800 milljónirnar í þeirri Evrópu sem þar kemur saman.

Frumvarpið fjallar auðvitað fyrst og síðast um mannréttindi og er eitt skref af mörgum sem við höfum tekið í þeim efnum á undanförnum árum. Má nefna samkynhneigða og aðra hópa en þetta er líka hluti af þeirri velferðarþjónustu sem er bæði kjarni samfélags okkar á Íslandi, vil ég trúa, og annarra samfélaga margra í Norður-Evrópu og stolt þessara samfélaga gagnvart umheiminum.

Um leið og ég fagna frumvarpinu er þess að óska að það leiði til þess að það fólk sem hér um ræðir, sem hér er nefnt fólk með kynáttunarvanda sem væntanlega leysist eftir að þær ráðstafanir hafa fram farið sem hér er gert ráð fyrir, svo talað sé bírókratískt og með fullri aðgát — að fordómum linni í garð þess fólks, stríðni og hæðni og þeim vondu aðstæðum sem það hefur búið við. Hæðni sagði ég, því að það hefur þótt ótrúlega fyndið að þetta skuli vera hægt og ótrúlega fyndið að fólk skuli langa til að breyta um kyn. Ég verð að viðurkenna að oft tekur maður þátt í slíkri fyndni, stundum óforvarandis. Ég ætla ekki að losa mig við alla þá brandara í einu vetfangi. En fyrir okkur sem lifum í því að vera sannir karlmenn og sannir kvenmenn, í samræmi við þá menningarstrauma sem algengastir eru í samtíðinni, er rétt að muna að kyn er ekki einfalt mál. Hið líffræðilega kyn er ekki einu sinni einfalt mál, hvað þá kynhegðun eða kyngervi, sá búningur sem hver maður klæðir sig í og á ekki nema að nafninu til skylt við hið líffræðilega kyn. Þau tvö kyn eru til sem við kennum við bleikt og blátt en kannski er hið þriðja kyn til líka og kannski eru þau miklu fleiri þó að menning okkar hafi hingað til ekki viljað viðurkenna það. Í öðrum menningarheimum er þetta flóknara og á öðrum tímum var þetta líka flóknara og kannski skemmtilegra. Við þurfum ekki að fara úr landi til að finna slíkar aðstæður fyrir kristni. Í fyrsta lagi hefur kynhegðun alltaf verið samkvæmt mannlegu eðli hvað sem menn hafa reynt að berja það úr þeim sem vilja fylgja þeirri kynhegðun sem þeim er ásköpuð.

Í öðru lagi er það þannig að í okkar fortíð eru dæmi um að kyngervin séu ekki jafneinföld og sjálfsögð og okkur finnst nú. Þá er hægt að vitna til fornsagna og heimilda um líf hér á landi fyrir kristni og siði fyrir kristni. Það var að sjálfsögðu þannig að það samfélag sem var hér á fyrstu öldum virðist hafa greinst mjög sterklega í kyn, samkynhneigð var til dæmis greinilega fordæmd og þótti mikill ljóður á ráði að minnsta kosti í hópi sannra karlmanna, en trúarbrögðin fyrir kristni voru þó þannig að guðirnir voru ekki allir eins kyns. Þór var mjög skýrt dæmi um karl karla og Freyja um konu kvenna en þeir félagar Óðinn og Loki áttu það til að taka á sig ýmsar kynmyndir og það tengdist bæði göldrum og skáldskap að kynáttunin var óviss, ef ég fer rétt með hugtök.

Þetta var útúrdúr en til að minna á að ekki er allt sem sýnist í þessum efnum og þeir sem hlæja hæst ættu kannski að hugsa aðeins dýpra.

Að lokum vil ég endurtaka fögnuð minn með þetta mál og þá sannfæringu að við séum að stíga skref í rétta átt. Ég á þá ósk að það komist í gegnum þingið fljótt og vel og verði samþykkt fyrir þinglok í vor.