141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

ívilnanir vegna stóriðju á Bakka.

[16:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við í hv. atvinnuveganefnd Alþingis höfum til meðferðar tvö frumvörp frá hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrími J. Sigfússyni um ívilnunarsamninga vegna uppbyggingar kísilverksmiðju á Bakka við Húsavík. Ég fór aðeins yfir málið með hæstv. umhverfisráðherra í síðustu viku en fannst ég ekki fá nægilega skýr svör frá henni þá. Það er auðvitað þekkt að orkufrekur iðnaður og uppbygging í stóriðju er ekki eitt af uppáhaldsmálum hæstv. ráðherra. Hún hefur sett við það ákveðna fyrirvara þar sem óneitanlega er um að ræða mengandi starfsemi.

Ég vil því til að taka af allan vafa í málinu spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún styðji ekki þau mál og hvort nokkur ágreiningur sé um þau í stjórnarflokkunum. Ég óska eftir því að fá skýr svör vegna þess að auðvitað er mjög mikilvægt þegar við afgreiðum málið á síðustu metrum þingsins, svo mikilvægt mál sem er eiginlega fyrsta alvörufjárfestingin á þessu kjörtímabili, beina erlenda fjárfestingin, að vita hver afstaða ráðherrans er.