141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn. Ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns. Þar var margt áhugavert sem ég tel eðlilegt að nefndin skoði, t.d. hvað varðar tímalengdina á skuldabréfunum og annað slíkt. Hann spurði hvaða launagreiðendur það væru sem féllu undir 1. gr. Ef ég náði því rétt eru það þeir sem greiða í opinbera sjóði, sé það rétt sem stendur þarna. Það eru sjóðir sem eru með bakábyrgð ríkis og opinberra aðila. Ég þekki hreinlega ekki hvort dæmi eru um að launagreiðendur hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar. Ég skal gjarnan kanna það eftir umræðuna hér svo það liggi fyrir ef óskað er eftir því þegar nefndin byrjar að vinna málið.

Hv. þingmaður nefndi samninga við opinbera starfsmenn út af lífeyrissjóði þeirra. Það er svo að núna er í gangi virkt samtal milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins við opinbera starfsmenn um þau mál. Það er von mín að menn geti farið að ljúka því svo einhver mynd af því hvernig við komum því fyrir inn í framtíðina fari að líta dagsins ljós. Ég hef lagt mikið kapp á að svo verði. Ég á von á því að menn fari að skila einhverju á vordögum en þetta er flókið mál og flókin staða. Það er alveg ljóst að ríkið hleypur ekkert frá skuldbindingum sínum. Þær eru þungar og erfiðar og við hlaupum einfaldlega ekki frá þeim. Á því þarf að taka. Um það erum við, ég og hv. þingmaður, hjartanlega sammála. Þetta er uppsafnaður vandi margra ára en það breytir því ekki að einhver þarf að taka á honum. Það munum við gera.