144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:34]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Eins og þingmaðurinn fór yfir er þetta frumvarp gott fyrir þá sem eru í greininni, þá sem eru í framleiðslu nautakjöts og í holdanautabúskap. Einnig vil ég taka undir það sem þingmaðurinn fór yfir, að gott er að læra af því sem áður var. Ég vil líka taka undir það með kollegum mínum hérna að það þarf að vera varfærinn í þessu máli og hafa skýrar reglur. Það er kannski það sem ég hef helst gagnrýnt í dag, mér finnst ekki nógu skýrt kveðið á um þær reglur sem fara á eftir, það er aðeins talað um möguleika á að setja reglurnar og verkferlana.

Mig langaði að fara yfir að svolítið hefur verið beðið eftir þessu og líka það sem ég talaði um áðan, þá vankanta sem eru á og urðu til í biðinni og við verðum að taka mið af og fara betur yfir. Ég hefði talið að besta tækifærið til að innleiða þá væri með þessu frumvarpi.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það eru tækifæri í nautakjötsframleiðslunni og þá er spurning hvort við leggjumst í frekari rannsóknir, á pari við vaxtarhraðarannsóknirnar, meðfram innflutningi erfðaefnis til að fá sem besta afkastagetu. Að lokum varðandi þær aðbúnaðarreglur sem hafa verið settar, eins og hv. þingmaður kom að, aðlögunartími þeirra meðfram aðlögun greinarinnar, aukningu í framleiðslu og hraðari framleiðslu, við þurfum að skoða hvort þær séu best til þess fallnar. Að öðru leyti þá verður, enn og aftur, að leggja áherslu á að kveða þarf betur á um sóttvarnir og innflutningsleiðir.