145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sömuleiðis áframhaldandi hugleiðingar um þetta. Þegar maður horfir til þess að almennt ef menn eru að kaupa íbúð gera bankar kröfu um að þeir geti reitt fram 20% af kaupverðinu sem eigið fé þá er alveg rétt að í því ljósi er 1/3 af verðmæti íbúðar í formi búseturéttargjalds hátt hlutfall, enda mun praxísinn hafa verið talsvert annar. Ég veit ekki alveg hvar maður á að skjóta á, hvort algengast sé að það hafi verið á bilinu 10–15% eða 5–15% sem menn hafa beinlínis reitt fram í búseturéttargjaldinu, enda ekki meiningin að fara að breyta löggjöf um húsnæðissamvinnufélög yfir í einkaeignarstefnufélög. Þá væru menn að missa algjörlega marks að mínu mati.

Það hvernig félögin ganga um þetta í samþykktum sínum er alveg lykilatriðið. Það leggur líka ríkar skyldur á herðar félögunum að hafa frá byrjun skýra stefnu í þeim efnum, kynna hana vel fyrir félagsmönnum sínum. Það er afar mikilvægt að allir viti að hverju þeir ganga í þeim efnum, þannig að það liggi ljóst fyrir. Síðan gerast menn félagsmenn og hafa þá aðstöðu til þess innan félagsins að hafa áhrif á stefnu og framvindu félagsins.

Niðurstaðan að afnema beinlínis í lögunum eða banna í lögunum fortakslausa kaupskyldu er varnaraðgerð til að fyrirbyggja að það rísi væntingar um það að menn eigi alltaf vísa endurgreiðslu á búseturéttargjaldi sínu á háu verði. Það er ekki tryggt. Menn deila saman áhættunni í sjálfu sér. Það sem þeir leggja undir er búseturéttargjald þeirra, þótt við skulum vona að yfirleitt sé ekki um annað að ræða en að menn fái verðmæti þess til baka ef þeir þurfa að yfirgefa félagið eða aðstæður þeirra breytast.