149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er nú svo að í þessari umræðu, bæði nú og jafnframt þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu, hef ég reglulega þurft að draga andann inn og út. Ég held að við höfum svo sem öll gott af því, því að umræðan verður ansi heit á köflum.

Mig langar að byrja á því, virðulegur forseti, að þakka hv. velferðarnefnd kærlega fyrir vinnuna og öllum þeim líka sem hafa sent inn umsagnir. Eins og fram hefur komið hefur fjöldi fólks, samtaka og stofnana sent inn umsagnir og ég vil þakka öllum þeim aðilum sem hafa komið að málinu og lagt hönd á plóg við að gera frumvarpið að því sem það er, og nú þetta nefndarálit.

Ég sagði í desember síðastliðnum þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu eitthvað á þá leið: Loksins, loksins kom fram frumvarp um breytingar á þessum lögum. Vegna þess að í mínum huga eru lögin sem við búum við í dag úrelt. Lögin heita: Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þetta eru lög sem eru eldri en sú sem hér stendur og er hún þó komin á miðjan aldur. Lögin blanda saman alls konar ólíkum hlutum og í rauninni er það svo að framkvæmdin á því sem samkvæmt lögunum í dag heitir fóstureyðing er varla í fullu samræmi við lagatextann. Samfélagið hefur að sjálfsögðu breyst mikið á þessum tíma.

Það breytist auðvitað ekkert að konur verða ófrískar og sömu aðferðinni er iðulega beitt við það tilefni. Ef texti gildandi laga er skoðaður ætti að mínu viti öllum að vera ljóst að þörf er á breytingum. Það er nefnilega svo að fóstureyðingar, eins og það heitir í dag — ég ítreka að ég er mjög hlynnt því að við breytum því í löggjöfinni í það að tala um þungunarrof — eru ekki frjálsar hér á landi. Þó að umræðan hafi farið í það hvort einhverjum hafi verið neitað eða ekki, þá erum við með ákveðin lög. Og ef fólk uppfyllir ekki skilyrðin þá getur það ekki sótt um það og þar af leiðandi fær það ekki neitun né fær það já við sinni bón.

Í dag eru tilgreindar ákveðnar ástæður sem heimila þungunarrof og tveir aðilar þurfa að skrifa upp á það, tveir læknar eða læknir og félagsráðgjafi. Þannig má segja að ábyrgðin sé að einhverju leyti tekin af konunni. Hún þarf vissulega að óska eftir aðgerð, en einhver þarf að skrifa upp á það að þetta sé eitthvað sem hún má gera. Ég held líka að ágætt sé í umræðunni, því að mér hefur heyrst sumir tala fyrir því að það eigi helst ekki að gera neinar breytingar, að fara aðeins til baka og átta okkur á því að búið er að kalla eftir breytingum á þessum lögum í svolítinn tíma.

Það kom einmitt kall frá sérfræðingum á þessu sviði frá kvensjúkdóma- og fæðingarlæknum í grein í Læknablaðinu fyrir allnokkrum árum. Einhvern tímann í kjölfarið skipaði svo fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, starfshóp sem fór yfir lögin og kom með tillögur að breytingum og þess vegna erum við stödd á þeim stað í dag þar sem ég tel mjög tímabært að ráðast í breytingar á lögunum.

Það sem hvað mestu umræðuna fær varðandi breytingar á lögunum er vikufjöldinn. Mér finnst mjög mikilvægt að því sé haldið skýrt til haga í umræðunni um 22 vikurnar að mörkin liggja við það að fóstur er ekki lífvænlegt á þeim tíma. Þrátt fyrir að hér sé rætt um spriklandi barn í móðurkviði eða jafnvel fædda hvalskálfa við 22 vikur, þá er fóstur ekki lífvænlegt. Ef kona kemur inn á fæðingardeild á þeim tímapunkti þá er ekki kallað eftir barnalækni vegna þess að því miður er það svo að ekki er hægt að bjarga börnum á þeim tímapunkti ef þau koma í heiminn.

Við skulum líka átta okkur á því að tillagan um 22 vikurnar kom frá sérfræðingum á þessu sviði. Hún kemur frá fæðingar- og kvensjúkdómalæknum og Ljósmæðrafélag Íslands hefur líka tekið undir hana. Mig langar líka að nefna að Ljósmæðrafélag Íslands á 100 ára afmæli í ár og stendur fyrir veigamikilli ráðstefnu í Hörpu þar sem 700 gestir frá 27 löndum koma saman. Þó að ég skilji svo vel að við hér í þessum sal séum að tala út frá tilfinningum, ég hef fullan skilning á því að fólk hafi mismunandi tilfinningar í þessu máli, þá finnst mér líka mjög mikilvægt að þeim staðreyndum sé haldið til haga að það eru sérfræðingarnir sem leggja til þennan tímafjölda og fyrir því hafa verið færð góð rök. Annars vegar að fóstur er ekki lífvænlegt á þeim tímapunkti og hins vegar er verið að horfa á það sem hægt er að gera í dag með nútímatækni að skima fyrir við 20 vikna sónar.

Þá kemur kannski að öðru sem mér finnst líka mjög mikilvægt að nefna og það er að tæknin er af hinu góða. Það er gott að hægt sé að skima fyrir alls konar hlutum. Mér finnst líka mjög mikilvægt að kerfið sé ekki þannig fram sett hér á landi að allir fari ósjálfrátt upp á eitthvert færiband. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að fræðsla sé til staðar fyrir þær konur sem óska eftir skimun. Þær átti sig líka á því hvað getur komið út úr slíkri skimun og þá mögulega hvaða ákvörðun kunni að bíða þeirra í kjölfarið. Með öðrum orðum, við þurfum að horfa á það hversu hátt hlutfall kvenna virðist óska eftir skimun og hvort það sé eðlilegt. Ef við horfum á lönd víða í kringum okkur virðist hlutfallið hér vera mun hærra en í mörgum löndum sem við berum okkur saman við.

Ég ætla að leyfa mér að segja að mér þykir meiri hluti velferðarnefndar hafa komist að réttri niðurstöðu. Ég hef aftur á móti skilning á því að fólk hafi mjög mismunandi skoðanir og sjónarmið þegar kemur að þessu máli. Þá held ég, virðulegur forseti, að svo mikilvægt sé að hafa í huga hvort við veltum fyrir okkur skoðunum okkar sjálfra á því hvort þungunarrof sé réttlætanlegt í mínu tilfelli eða þínu tilfelli eða tilfelli okkar nánustu eða hvort við séum að setja lög fyrir landið allt sem þurfa að ná utan um öll möguleg og ómöguleg tilfelli sem koma upp.

Það er einmitt kannski þess vegna sem umræðan hefur farið út í marga hluti, hvort sem talað er um 13 ára stúlkuna eða hvað það er sem nefnt hefur verið nefnt hér í dag, vegna þess að við erum svo margbreytileg og atvik sem kunna að koma upp eru svo ótrúlega mörg og ótrúlega ólík. En við sem setjum lögin þurfum að tryggja að þau nái utan um alla, öll atvik. Þó að ég geti haft skilning á því að fólk hafi mjög mismunandi skoðanir á þessu, þá hefur það verið niðurstaða mín eftir mjög ítarlegar vangaveltur að við hér getum aldrei skrifað inn nákvæman lagaramma um það hvenær svona sé réttlætanlegt og hvenær ekki, í hvaða tilfellum, á hvaða aldri, í hvaða aðstæðum sem kunna að vera uppi o.s.frv.

Það var að hluta til reynt með þeim lögum sem nú eru í gildi. Við vitum það frá sérfræðingum sem starfa í þessu að þar er í rauninni ekki í fullt samræmi. Hvernig félagslegar aðstæður kvenna eru og það sem er tilgreint í lögunum, ef textinn er lesinn, er augljóst að hann var skrifaður um 1975 en ekki 2019. Auðvitað eru félagslegar aðstæður fólks mjög breytilegar. Ég held því, hvað sem okkur kann að finnast um svona hluti, að í grunninn sé aldrei hægt að setja ábyrgðina og þar af leiðandi ákvörðunina um jafn stórt mál og þungunarrof er á aðra en þá konu sem er þunguð.

Í eðlilegu sambandi fólks efast ég ekki um að slíkt sé rætt og báðir aðilar fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en að fara að skrifa inn í einhver lög hver á að samþykkja eða hver ekki, ég sé það bara ekki ganga upp, virðulegi forseti. Í fullkomnum heimi yrði engin kona þunguð nema óska þess sérstaklega, en við búum ekki í fullkomnum heimi og hvernig sem við ætlum að reyna að nálgast þetta í flóknum lagatexta er alltaf besta lausnin sú, eins og hér er lagt til, að ákvörðunin sé konunnar.

Á sama tíma finnst mér líka mjög mikilvægt að konan hafi gott aðgengi að upplýsingum, ráðgjöf og fræðslu. Það á ekki að vera lögbundið, hún á að hafa fullt frelsi til að velja það sem hún hefur í hyggju. Við þurfum einmitt að huga að því að ráðgjöf sé til staðar alls staðar á landinu. Ég sé til að mynda að félagsfræðingar hafa sent inn umsögn þar sem bent er á og ítrekað mikilvægi þess að ráðgjöf sé í boði alls staðar. Það er einfaldlega þannig að við leggjum ábyrgðina almennt á lögráða einstaklinga. Þeir þurfa að bera ábyrgð á lífi sínu og sínum gjörðum og ég held að við verðum að gera það sama í þessu máli.

Hvað sem okkur sem persónum kann að finnast um þungunarrof verðum við að átta okkur á því að hér setjum við lagaramma í kringum alla sem á landinu búa. Þegar við heyrum sögur af því að fólk sé farið að leita út fyrir landsteinana eftir slíkri þjónustu og höfum staðfest dæmi um slíkt, sem kom fram á fundi hjá velferðarnefnd, þá hryggir það mig mjög ef við á Íslandi getum ekki boðið fólki upp á þá þjónustu og haldið þannig utan um það, hvað sem okkur kann að finnast um það ef það sækir hana annars staðar, að fólk fái þjónustu í öruggu heilbrigðiskerfi hér á landi.

Ég ætla ekki að lengja þetta miklu meira. Ég segi bara við hv. velferðarnefnd: Takk kærlega fyrir ykkar vinnu.

Ég ber virðingu fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram og hef skilning á því að fólk kunni að hafa mismunandi sjónarmið í málinu. Það er eitt þegar við hugsum um okkur sem persónur eða okkar nánustu, en annað þegar kemur að því að semja lög sem eiga að gilda um alla.