150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Á hádegi í gær hófst aftur verkfall Eflingar í fjórum sveitarfélögum, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Ölfusi. Þetta er grafalvarlegt mál. Þarna er undir þjónusta sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íbúana. Við erum með starfsfólk sem er í mjög mikilli og knýjandi þörf að ljúka sinni samningagerð. Þarna verða viðkomandi sveitarfélög að stíga inn í og klára þessa samningagerð með viðsemjendum sínum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þar eru undir hagsmunir notenda grunnskóla og notenda leikskóla og alls konar þjónustu, en það sem mikilvægast er að þarna á í hlut fólk sem er á lágum launum, fólk sem er í, við skulum segja, að jafnaði einna lægst launuðu störfunum hjá sveitarfélögunum og sveitarfélögin verða að mæta þeim í samningagerðinni. Auðvitað gildir það sama um Eflingu, Efling verður líka að mæta sveitarfélögunum. En grunnstefið í þessu er hins vegar það, eins og ég sé það, herra forseti, að sveitarfélögin og Efling mega ekki láta þessa samningagerð verða að einhvers konar störukeppni milli aðila. Þar verða aðrir að stíga inn í, til að mynda ríkissáttasemjari og klára þessa samningagerð þannig að öllum aðilum sé sómi að.