150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

um fundarstjórn.

[15:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er ekki mjög ósáttur við fundarstjórn hæstv. forseta, en ég vil í tilefni af orðum hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur áðan geta þess — ég vissi svo sem að hún ætlaði með einhverjum hætti að víkja að mér í ræðunni og geri engar athugasemdir við það — en ég vildi bara taka það fram að það má ekki skilja grein mína sem svo að ég geri athugasemdir við það að forsætisráðherra boði fund til að halda áfram vinnu sem hefur verið í gangi allt þetta kjörtímabil og að mér skilst í þokkalegri sátt svona að mestu leyti. Ég geri mikinn greinarmun á því að halda þeirri vinnu áfram og hins vegar því að ætla, eins og maður hefur ákveðnar áhyggjur af, að einhverjir kunni að sjá færi til þess að nýta erfiðleikana í ástandinu eins og það er í dag, visst upplausnarástand sem stafar af miklum efnahagslegum áföllum, til að koma í gegn breytingum sem hafa efnislega ekkert með þetta efnahagslega ástand að gera.