151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[14:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er verið að framlengja heimild til að víkja frá ákvæðum um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum notendastýrða persónulega aðstoð. Ég kvitta ekki undir þetta nefndarálit og vil gera grein fyrir því hvers vegna. Við Píratar munum væntanlega styðja málið en ég vil bara einhvern veginn ekki taka ábyrgð á þessu. Ákvæðið hefur verið framlengt fjórum eða fimm sinnum. Ég er búin að missa tölu á hversu oft er búið að framlengja bráðabirgðaákvæðið. Í nefndaráliti frá desember 2018 kemur fram, með leyfi forseta:

„Nefndin áréttar mikilvægi þess að farið verði í úttekt á starfsumhverfi starfsmanna sem starfa við notendastýrða persónulega aðstoð og að mörkuð verði skýr stefna um framtíðarstarfsumhverfi þjónustunnar.“

Það eru að verða tvö og hálft ár síðan, herra forseti. Það er ljóst að ráðherra er búinn að gefast upp fyrir því verkefni að finna varanlega lausn á þessu úrlausnarefni og er bara búinn velta þessu yfir á næsta ráðherra, því miður. (Forseti hringir.) Það hefði þurft að finna lausn á þessu fyrir löngu síðan, í raun og veru áður en lögin tóku gildi. Það er hálfgert fúsk og ábyrgðarleysi (Forseti hringir.) að ekki sé búið að finna lausn á því.