Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:28]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góða framsögu í þessu ágæta máli sem mér líst bara nokkuð vel á, að gefa fólki meiri ráðstöfunarrétt yfir erfðaefni sínu. En það er eitt sem ég rak augun í þegar ég var að renna í gegnum þetta frumvarp, það er notkun á orðinu leghafi. Það er bæði notað orðið kona og orðið leghafi og mér finnst þetta vera svolítið sérstakt. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það mætti ekki að einhverju leyti umorða þetta og tala um konur og þá trans fólk með leg eða konur og trans leghafa. Mér finnst þetta vera svolítið sérstakt og það væri ágætt að heyra það hér — þetta er ekki stórmál en samt sem áður þá stingur þetta svolítið í eyru fyrir sveitamanninn sem kemur hingað til borgarinnar í þetta ræðupúlt á hinu háa Alþingi og það væri fróðlegt að heyra hér svör hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.