Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil kannski ljúka hér því sem við hófum að tala um í fyrra andsvari. Samkvæmt dönsku lögunum er heimilt að gefa fósturvísa ef það er ekki í ábataskyni. Sú breyting á lögunum þar kom inn 2017 sem kannski sýnir okkur að á allra síðustu árum eru að verða jákvæðar breytingar í þessa átt og í anda, eins og ég endaði framsöguræðu mína á, samvinnu og samkomulags; svo lengi sem við virðum alltaf rétt barnsins í öllu tilliti.

Varðandi stofnfrumurannsóknir þá er það auðvitað stórmál og blessunarlega, segjum við oft, eru vísindin og læknisfræðin á fljúgandi siglingu sem gefur okkur möguleika á að bregðast við sjúkdómum sem við höfum ekki náð miklum framgangi í að meðhöndla. En svo er það auðvitað spurning hversu langt við göngum í því. Þá erum við á mörkum vísindanna og ábata af því og svo þess siðferðislega. Ég get tekið (Forseti hringir.) undir það sem hv. þingmaður fór hér yfir en ég vildi gjarnan hafa tíma, herra forseti, til að fara betur yfir þetta mál.