Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:47]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar til að leggja orð í belg um þetta mikilvæga mál sem við í Viðreisn munum styðja heils hugar. Við fögnum öllum þeim framfaraskrefum sem tekin eru hér á Alþingi og þegar um aukið frelsi til handa einstaklingum er að ræða þá styðjum við það að sjálfsögðu. Hér er um að ræða frelsi fólks til að ráða yfir sínum kynfrumum og þetta er í raun og veru löngu tímabært. Hér hefur verið nefnt þingmannafrumvarp sem liggur fyrir og mér sem áheyrnarfulltrúa í velferðarnefnd finnst eðlilegt að þessi mál verði skoðuð saman og reynt að smyrja þau saman eftir því sem þurfa þykir. Ég er alveg viss um að þessi frumvörp geti bætt hvort annað þegar við förum að leggjast yfir þetta. Mig langar bara að lýsa því yfir að þegar svona mál eru á dagskrá, þetta eru í mínum huga mikil siðferðisleg álitaefni — hér var nú ráðherrann að nefna okkur af gamla skólanum, gamlingjana sem hér erum á þingi — þá þurfum við oft leiðsögn. Ég er reglulega tekinn á teppið af börnunum mínum, eggið þarf að kenna hænunni. Það er bara þannig. Ég næ ekkert alltaf utan um það sem ungt fólk er að velta fyrir sér í dag og íhaldssamt og niðurnjörvað samfélag þarf á því að halda að það sé brotið upp þannig að mér finnst bara gott að fá stundum yfirhalningu. Og þó að það séu einhver orð sem ég skil ekki akkúrat núna þá get ég bara gert svo vel að læra hvað þau þýða. Það er gott að eiga börn sem taka mann til bæna.

Um þetta mál, þótt ágætt sé, eru farnar að koma umsagnir í samráðsgátt, m.a. frá embætti landlæknis og Félagsráðgjafafélagi Íslands og síðan hafa Samtökin '78 lagt fram umsögn. Mig langar, virðulegi forseti, til að fara aðeins í þær umsagnir sem fram hafa komið þar sem vakin er athygli á málum sem kannski þarf að skoða.

Landlæknir segir m.a. að hann fagni þessu frumvarpi en telur eðlilegt að það þurfi að bæta enn frekar við 10. gr. í frumvarpinu þar sem kveðið er á um skyldu til að upplýsa eigendur fósturvísa áður en þeim er eytt. Síðan nefnir embætti landlæknis að kveða þurfi á um það í lögum að fyrir liggi upplýsingar um fjölda fósturvísa sem eru í geymslu hverju sinni. Það er kannski spurning af hverju ekki hefur verið brugðist við þessu áður. Landlæknir vekur líka athygli á því að það þurfi að takmarka hvernig fósturvísum er ráðstafað vegna smæðar þjóðarinnar og skyldleika sem getur átt sér stað, þ.e. að ekki eigi að vera að dreifa fósturvísum á fleiri staði en innan sömu fjölskyldu. En þrátt fyrir að verklagið geri ráð fyrir því að svo sé þá þurfi að kveða á um þetta í lögum.

Í umsögn félagsráðgjafafélagsins kemur fram að það fagni þessu, eins og allir aðrir, að ég held, en vill samt benda á að mikilvægt sé að einstaklingar hafi ákvörðunarvald yfir kynfrumum sínum og fósturvísum sem þeir hafa staðið að og eiga í geymslu. Nýting fósturvísa sem fást með tæknifrjóvgunarferli eigi ekki að vera háð því að upphaflegt sambúðarform þeirra einstaklinga sem stóðu að tæknifrjóvgun haldist óbreytt og ættu aðilar að hafa möguleika á að gera með sér samkomulag um nýtingu fósturvísa eftir slit á hjúskap eða sambúð og það sama eigi við þegar annar aðilinn andast. Með því að veita maka sínum heimild til að nýta kynfrumur eða fósturvísa eftir andlát sitt er t.d. opnað á möguleika fyrir fjölskyldur að eiga börn þannig að barn eignist alsystkin. Það er auðvitað eitthvað sem vert er að skoða. Allt snýst þetta um frelsi til að ráðstafa kynfrumum sínum eða fósturvísum og að það sé ekki eitthvert vald sem gerir það.

Þá er einnig athyglisverð umsögn Samtakanna '78 sem eins og aðrir hafa fagnað þessu frumvarpi en benda á ákvæði sem vert er að gefa gaum. Samtökin telja m.a. að ákvæði frumvarpsins um eyðingu kynfrumna og fósturvísa vegna andláts eða sambúðarslita, þrátt fyrir að geymslutími sé ekki liðinn, feli í sér mismunun. Þá sé þetta mikið réttindamál fyrir pör sem samanstanda af tveimur konum. Í því sambandi er vísað til þess að kona sem hafi farið ein í tæknifrjóvgun sé með betri réttarstöðu en kona sem fór í tæknifrjóvgun með þáverandi konu sinni og geymdi fósturvísa. Í báðum tilfellum sé notast við gjafasæði en í síðara tilfellinu geti sú kona sem lagði til kynfrumur ekki nýtt áfram fósturvísa sem voru búnir til í fyrra sambandi með nýjum maka, ef hún er komin í sambúð á nýjan leik með annarri konu, eða ein, þrátt fyrir samþykki fyrrverandi maka. Að lokum beina samtökin því til ráðuneytisins að bæta við lögin kynlausri tilvísun til einstaklinga með leg, einkum með tilliti til trans og intersex, til viðbótar við hugtökin kona og móðir.

Síðan langar mig, virðulegur forseti, í lokin að velta því upp hverjir það eru sem aðstoða fólk við getnað. Maður þykist vita þegar maður horfir á þetta að þetta gæti verið nokkuð ábatasamur iðnaður en ég þykist vita að í þessari starfsemi sé bara fákeppni, ég veit ekki hvort það eru fleiri en einn aðili sem sinna þessum málum. Þegar um það er að ræða að það er engin samkeppni þá er nánast hægt að verðleggja slíka þjónustu alveg út úr korti og ég þykist vita að fólk sé að borga formúur til að fá slíka aðstoð. Maður veltir fyrir sér hvort það sé eitthvað í regluverkinu sem hamli því að fyrirtæki séu tilbúin til að fara í þessa starfsemi eða hvort þessir aðilar sem nú eru til staðar á markaði séu bara komnir með slíkt yfirburðarforskot að það leggi enginn í að fara í samkeppni við þá. Mér finnst það vera umhugsunarvert að skoða hvers vegna ekki eru fleiri aðilar að sinna þessari mikilvægu starfsemi.