131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:12]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að brýn þörf er á víðtæku og samstilltu átaki í atvinnumálum í Austurbyggð eins og nú stendur. Heimamenn hafa líka sannarlega tekið sér fyrir hendur að vinna saman, sveitarstjórn, Þróunarstofa Austurlands og það fyrirtæki sem nú kemur til með að loka fiskvinnslu sinni á Stöðvarfirði, þ.e. Samherji. Þessir aðilar hafa unnið saman að því að finna ný tækifæri og hafa sýnt alveg ótrúlega góða vinnu, unnið mjög vel saman og það kemur fram í erindi sveitarstjórnar Austurbyggðar til okkar þingmanna að menn líta að mörgu leyti mjög björtum augum til framtíðar.

Jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar koma í not í haust og þá mun þetta atvinnusvæði stækka og eflast sem er mjög til hagsbóta fyrir alla suðurfirði.