131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:35]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að dragnótin og dragnótaveiðar eru umdeildar mjög víða og þess vegna hafa verið settar takmarkanir við þeim veiðum. Það er hins vegar líka rétt sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni með tilvitnun í Níels Ársælsson að dragnótin er það veiðarfæri sem sennilegast hentar best til tilraunaveiða í þessum tilgangi.

Ég átta mig hins vegar ekki alveg á hvað hv. þm. Jón Gunnarsson á við þegar hann talar um að það sé ekkert formlegt ferli. Búið er að veita leyfi í þessum tilgangi í fimm frekar en fjögur ár, ef ég man rétt, og þar af held ég öll árin í Eyjafirðinum með einni undantekningu. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef orðið var við einhverjar deilur um það. Þegar ákvörðun var tekin um það upphaflega að leyfa undanþágur í þessum tilgangi var auðvitað farið yfir um hvers konar veiðarfæri væri að ræða og hvort það væri réttlætanlegt með tilliti til þess tilgangs sem veiðunum var ætlað að þjóna. Síðan hefur verið farið eftir því vinnulagi sem ákvarðað var í upphafi. Ég sé engan sérstakan tilgang í því þegar verið er að framkvæma verk ár eftir ár á sama hátt að senda út til umsagnar til einhvers hóps aðila ákvarðanir sem í sjálfu sér er sáraeinfalt að taka. Það skapar meira bírókratí, herra forseti, að haga málum þannig. Þarna er um einfalda ákvörðun að ræða sem mörkuð er í tíma og tilgangi. Síðan tel ég víst að hverastrýturnar séu markaðar á sjókort þannig að menn kunni að varast þær.