138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.

415. mál
[15:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóð og skýr svör og eins hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði áðan, enda er ég meðflutningsmaður á frumvarpinu um að afnema tímabundið dráttarvexti á skuldir einstaklinga. Það mundi kosta fjármálafyrirtækin 2,3 milljarða að afnema þá tímabundið út frá þessum tölum hérna og dreifist sá kostnaður að sjálfsögðu á fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og alla þá sem hafa verið að lána fé og er meira en viðráðanlegt fyrir þá. Við erum að tala um þröngan hóp þeirra fjölskyldna sem eru skuldugastar í landinu, skuldugasta fólkið sem lenti í því að kaupa húsnæði, var að byggja húsnæði, situr uppi með tvær eignir, hálfbyggðar eignir o.s.frv. einmitt þegar fjármálahamfarirnar skullu yfir. Það eru því öll málefnaleg rök fyrir því að afnema tímabundið alveg dráttarvexti á skuldir einstaklinga.

Ég er mjög ánægður að heyra það að sú bráðaaðgerð sem þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks greip til um að lækka álagið strax í desember 2008 hafi skilað 27 milljörðum kr. lægri dráttarvaxtakostnaði á ári til bæði fyrirtækja og einstaklinga. Því tel ég að það sé mjög málefnalegt út frá þessum tölum og þessum rökum og þeirri stöðu sem þessi hópur, afmarkaði hópur þeirra sem skuldugastir eru og eru með hluta skulda sinna í vanskilum, að afnema tímabundið dráttarvextina á þá alveg. Hér er um að ræða, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, talsverðan hagsauka fyrir þau heimili sem eru í mestu erfiðleikunum, heimilum sem sum hver búa við fjármálalegt neyðarástand. Okkur ber að gera allt sem hægt er að gera til að létta þeim róðurinn. Þetta er eitt af því sem hægt er að gera án þess að það komi of harkalega niður á einhverjum einum aðila eða ríkinu.