139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, sagði, það voru fjölmargir sérfræðingar kallaðir á fund allsherjarnefndar til að fjalla um þá tillögu sem við greiðum nú atkvæði um. Allir áttu þeir eitt sammerkt, það var að þeir vöruðu allir við þeirri leið sem hér eru greidd atkvæði um og mæltu gegn henni. Þegar falleinkunn þeirra á þessari tillögu var orðin svo skýr leið meiri hlutanum svo illa að hann treysti sér ekki til að fá einu sinni prófessora í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands til að fjalla um tillöguna. Í stað þess að hlusta á sér fróðari menn var málið afgreitt frá nefndinni.

Við eigum að bera virðingu fyrir Hæstarétti Íslands og hlíta niðurstöðum hans. Það er ekki gert með þessari tillögu heldur farið í kennitöluflakk og það á allra síst við þegar um sjálfa (Forseti hringir.) stjórnarskrána er að ræða. Og það er ekki gott veganesti (Forseti hringir.) til að hefja störf á endurskoðun stjórnarskrárinnar.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn segir …)

Þingmaðurinn segir nei.