140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórn.

[13:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég skal reyna að svara þessu öllu saman aftur því að þetta er sama spurningin og ég fékk áðan og þingsköpin leyfa það greinilega í þessu tilviki að sama málið sé tekið upp oftar en einu sinni.

Það þekkja allir sem eitthvað hafa komið nálægt stjórnmálum og samskiptum stjórnmálamanna að við færum auðvitað ekki samtöl um málefni sem við höfum átt við tiltekna þingmenn inn í þingsalinn og gerum hv. fyrirspyrjendur að þátttakendum í fundum sem ekki standa yfir, það er ekki þannig. Ef hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson eða aðrir óska eftir því að hitta okkur og ræða málefni og framgang mála í þinginu er það alveg velkomið. Við höfum alltaf tekið slíku vel hver sem í hlut á og það er það sem hér á við og er ekkert nýtt í því. Það áttu sér stað samtöl í kringum jól og áramót sem voru á nákvæmlega sama grunni. Þá voru að hluta til sömu stóru málin undir, þ.e. það baráttumál að koma stjórnarskrárbreytingunum áfram og láta ekki drepa þær með málþófi eða öðrum ómálefnalegum hætti. Því miður erum við enn í sömu sporum hvað það varðar. Það er meðal annars það mál sem við höfum átt samtöl og samskipti við Hreyfinguna um þar sem leiðir liggja algerlega saman milli stjórnarflokkanna og hennar. Við sættum okkur ekki við að það mál sé sett út af sporinu með aðferðum af því tagi.

Ýmislegt fleira eins og umbætur í stjórnsýslu og kosningalöggjöf og í lýðræðismálum almennt hefur borið þarna á góma, einnig persónukjör og annað því um líkt, upplýsingalög og það baráttumál að hér sé búið um upplýsingagjöf með tilteknum og opnum hætti og fleira mætti nefna. Nú er ég farinn að tala meira og minna fyrir málstað Hreyfingarinnar. Ég svara auðvitað spurningunum eins og þær bjóða upp á en ég veit ekki hvað hefst upp úr þessu. Það er svo önnur saga hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni.