144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það var svolítið upplýsandi og mikilvæg reynsla að fara á fund með sveitarstjórnarmönnum í síðustu kjördæmaviku uppi í Kjós sem er bara rétt við borgarmörkin, mikil sveitasæla þar. Þar er sem sagt það lélegt internetsamband að fólk getur í raun og veru ekki haldið almennilega uppi atvinnurekstri þar sem þarfnast einhverra gagnaflutninga. Ég heyrði dæmi af manni þar sem var að reyna að stunda einyrkjastarfsemi í arkitektúr og honum var það eiginlega ókleift uppi í Kjós vegna þess að það var ekki hægt að hala niður stórum PDF-teikningum nema byrja á því snemma að morgni og vænta þeirra svo síðdegis. Þetta er bara uppi í Kjós og þetta er auðvitað óviðunandi. Ég held að það sem við verðum að átta okkur á, og ég held að allir séu farnir að átta sig á því og að það sé algjör samstaða um það, að gott aðgengi að internetinu er orðið alveg jafn mikilvægt og að hafa veg, rafmagn og vatn. Þetta er orðin ein af grunnþörfum nútímasamfélagsins á 21. öldinni.

Ég hef til dæmis heyrt ágætissögur af Ástralíu sem er strjálbýlt land en hefur tekið það mjög alvarlega að fara í uppbyggingu á þessum fjarskiptum. Við Íslendingar eigum ágæta sögu í því að fara í uppbyggingu á innviðum eins og hitaveitu. Ég hvet okkur öll, hvet ráðherrann til að fara í uppbyggingu á internetaðgengi, fjarskiptum, af sömu röggsemi og farið hefur verið oft og tíðum í aðra uppbyggingu (Forseti hringir.) á innviðum á Íslandi. Það er áhyggjuefni sem hér hefur verið komið inn á að í ríkisfjármálaáætlun eru eiginlega engir auknir peningar í opinberar fjárfestingar. Það er smááhyggjuefni að það vantar upp á röggsemina.