149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi sérstaklega bregðast við orðum hv. þm. Þorsteins Víglundssonar áðan um málsmeðferð varðandi fjármálaáætlun annars vegar og frumvarp um Seðlabanka hins vegar. Nú er það svo, þó að annað hafi mátt ráða af orðum hv. þingmanns, að þessi mál voru lögð fram hér í lok mars, fyrir frest. Það er reyndar lögbundið í tilviki fjármálaáætlunar að hún þurfi að koma fram á tilteknum tíma. Það tókst að gera það á réttum tíma í ár, ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár. Það er því ekki verið að ætla skemmri tíma til afgreiðslu fjármálaáætlunar nú en lög gera ráð fyrir og venja stendur til. Það er að vissu leyti rétt hjá hv. þingmanni að ákveðnar forsendur kunna að breytast með breyttri þjóðhagsáætlun en hins vegar sé ég ekki að það eigi eða geti haft áhrif á gang mála í þinginu. Fjármálaáætlun er sérstök að því leyti að það er lögbundið að hana skuli leggja fram á hverju ári og þingið þarf að veita henni athygli og gefa þann tíma í þá málsmeðferð sem nauðsynlegur er til að ljúka afgreiðslu hennar með skikkanlegum hætti. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að gefa í skyn að það sé á einhvern hátt í ólestri núna.

Varðandi frumvarpið um Seðlabankann þá á það sama við um það. Frumvarpið kom fram hér í lok mars og mælt var fyrir því, ef ég man rétt, 1. apríl. Þingið hefur því ekki einn mánuð, eins og ráða mátti af máli hv. þingmanns, heldur tvo til að fjalla um það. Það verður síðan mat nefndarinnar og þingsins í heild hve mikla orku þarf að setja í það mál og hve mikla yfirferð það þarf. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er mikilvægt mál sem verðskuldar mikla athygli og það er margt sem er ekkert einhlítt í því. En ég held að það sé alveg ástæðulaust að gefa í skyn að ekki séu nægilega góð vinnubrögð viðhöfð.