151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

9fjölmiðlar.

367. mál
[15:21]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég myndi kannski vilja byrja á lokaorðum hv. þingmanns og tek einlæglega undir með honum hvað það varðar að það sé óskandi að þessi nefnd skili af sér einhverjum þeim tillögum að málinu haldi áfram að vinda fram. Ég minni líka á að þegar hæstv. menntamálaráðherra setti þennan vinnuhóp á laggirnar var honum gefinn, að mig minnir, frestur út marsmánuð og síðan hefur ekkert heyrst og varla til hópsins spurst. En það er alveg satt, ég lauk máli mínu á því að segja að ég væri ekki búin að gera það upp við mig hvernig ég ætla að greiða atkvæði í þessu máli. Vitaskuld þurfa ríkisstjórnarflokkar að vinna þannig að gerðar séu málamiðlanir og gagnrýnin lýtur ekki að því. En þetta er eitthvað annað, myndi ég segja, því að hér er um sniðgöngu að ræða, hræðslu, vil ég leyfa mér að segja, í máli sem hefur árum saman verið til umræðu í samfélaginu öllu. Einkareknir miðlar gjalda fyrir það. Og þegar þeir þættir sem miklu máli skipta um stöðu einkarekinna fjölmiðla, sem ég held að allir séu sammála um að séu þessar erlendu efnisveitur annars vegar og síðan ákveðin yfirburðastaða RÚV, eru ekki inni sem hluti af samtalinu og meiri hlutinn getur ekki einu sinni rætt um þá í nefndaráliti sínu þá er eitthvað annað og meira en málamiðlun í gangi. Þessi vinnubrögð eru með þeim hætti, vil ég meina, að það hefur haft áhrif á það hvernig málið lítur út, þetta er eitthvað annað og meira en málamiðlun. Ég spyr hv. þingmann, fyrst við erum að ræða um afstöðu mína til málsins: Er hann ánægður með þetta mál eins og það lítur út, í þeim búningi sem það er núna?