Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

fjarskipti o.fl.

947. mál
[17:24]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir. Hér komu fram ýmsar góðar ábendingar sem auðvitað hafa verið ræddar á vettvangi Evrópusambandsins og hjá fjarskiptafyrirtækjunum. Áhyggjur þessar þarf auðvitað að skoða í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vildi kannski nefna það við hv. þingmann og þá þingmenn sem hafa komið hér upp að hér er verið að ræða búnað sem fjarskiptafyrirtækin þekkja og það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að farið sé yfir hann með þeim í nefndinni til að átta sig betur á þeim búnaði og hvort við viljum taka þessa heimild inn svona eða með öðrum hætti. Þetta á að vera mjög þröng heimild og mjög mikilvægt að sjónarmið um fjarskiptaleynd verði tekin til greina og skoðunar og skoðað hvort þessi undanþága sé of víðtæk. Við verðum að gæta meðalhófs. En hér eru líka brot sem við þurfum að finna leiðir til að taka á með einhverjum hætti og í þessu hefur Evrópusambandið talið að hér sé farið mjög varlega í sakirnar varðandi þessa undanþágu með þessum búnaði. Það eru áhyggjur hjá fjarskiptafyrirtækjum um svona söfnun upplýsinga af þeirra hálfu, hvort sem það er misnotkun á efni, barnaníðsefni sem er til staðar eða annað. Ég bind vonir við að hv. nefnd taki til greina áhyggjur hv. þingmanns og fjalli um það líka með fjarskiptafyrirtækjunum sem þekkja þennan búnað vel og þá umræðu sem nú þegar hefur átt sér stað í Evrópu af því að þetta hefur ekki nú þegar verið tekið upp, þannig að við höfum góðan tíma til að fjalla um þennan hluta frumvarpsins í nefndinni.