Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

982. mál
[18:39]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar frá hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem er að mörgu leyti alveg prýðileg og margt mjög gott að finna í þessari tillögu. Mig langaði samt að víkja að nokkrum þáttum sem ég hjó eftir í kynningu ráðherra og það eru í mörgum tilfellum atriði sem vert er að hafa í huga. Oft hefur t.d. verið kvartað undan því að við tryggjum hér á landi ekki nægjanlega vel samfellu í þeim stuðningi sem nýsköpunarfyrirtæki þurfa á að halda. Það getur verið að ágætlega gangi fyrir fyrirtæki að byrja hér en svo kemur oft að því þegar fyrirtækin hafa stækkað upp að vissu marki þá falli út stuðningur eða ívilnanir sem geta til lengri tíma tryggt að fyrirtækin sjái sér hag í að starfa hér. Það er mikilvægt að við tryggjum að fyrirtæki sjái sér hag í því að byrja hér sem sprotafyrirtæki, verða minni nýsköpunarfyrirtæki og stækka og verða hér stór fyrirtæki sem leggja heilmikið til eins og mýmörg dæmi eru um, fyrirtæki sem hafa byrjað hér og eru núna orðin stór fyrirtæki. Við þurfum að tryggja að þessi fyrirtæki haldist í landinu og við þurfum að gera það með því að tryggja samfellu í þeirri þjónustu og ívilnunum sem við veitum.

Hér var líka talað um tækifæri í deilihagkerfinu. Mig langaði að benda á möguleika sem gætu falist í því, með tilliti til sjálfbærni, að taka tæki sem annars fara til úreldingar og endurvinna þau og nýta í deilihagkerfinu. Oft geta tæki sem ekki nýtast einum aðila nýst mörgum öðrum og þarna gætu verið ýmis tækifæri.

Svo hefur hér verið vikið að menntun, bæði hvað varðar læsi og lögverndun iðngreina. Í því er rétt að hafa í huga að það er algjört lykilatriði að við skoðum hvernig við samþættum menntunarstigin, að það sé ákveðin samfella í því og tekið sé tillit til þess hvernig börn verða unglingar og svo fullorðin þegar farið er milli menntunarstiga og stutt sé við þau allan tímann. Það er alveg vert verkefni að skoða árangur sem aðrar þjóðir eins og Finnar t.d. hafa náð í sínu menntakerfi og er aðdáunarvert.

Mig langaði að koma örlítið inn á lögverndun iðngreina. Nú vill svo til að fyrir nokkuð mörgum árum var heilmikil umræða um lögverndun iðngreinar sem er ljósmyndun og hver væri raunverulega uppruni þessarar lögverndunar, hvaðan hún kæmi. Eftir þó nokkra vinnu iðnaðarráðherra þess tíma þá kom svarið að í iðnlöggjöfina voru færðar upphaflega þær iðngreinar þess tíma og það virðist hafa byggst á því hvaða iðngreinar voru á þeim tíma kenndar í Iðnskólanum. Þetta kann að mörgu leyti að skýra það sem hæstv. ráðherra vék að hér í ræðu sinni, þ.e. hvers vegna svo margar iðngreinar er að finna hér. Það getur auðvitað verið til trafala. Að þetta hafi ekki verið endurskoðað með reglulegum hætti er eitthvað sem þyrfti að skoða. Það er líka vert að benda á að í stjórnarskrá eru atvinnuréttindi tryggð, þ.e. fólki er tryggður sá réttur að stunda þá atvinnu sem það vill nema almannahagsmunir krefjist annars. Ef á að endurskoða þetta þá myndi ég hvetja til þess að skoðað verði hvaða iðngreinar raunverulega krefjast lögverndunar út frá almannahagsmunum. En það er alveg ljóst að um margar iðngreinar gildir að nauðsynlegt er að tryggja að við þær starfi einungis fólk sem hefur til þess þekkingu og getu til að sinna þeim störfum sómasamlega.

En þessi tillaga til þingsályktunar er prýðileg og mér líst mjög vel á þetta.