Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[18:46]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026. Um er að ræða fyrri aðgerðaáætlun stefnumótunar í málefnum hönnunar og arkitektúrs sem kynnt var í febrúar síðastliðnum. Framtíðarsýn þeirrar stefnu er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé nýtt markvisst til að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Með því að hagnýta aðferðir hönnunar á sem flestum sviðum munu stjórnvöld og atvinnulíf auka gæði, bæta heilsu og mannlíf, skapa áhugaverð störf og hraða verðmætasköpun.

Virðulegur forseti. Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs heyrir undir menningarstefnu menningar- og viðskiptaráðuneytis og tekur mið af innleiðingu og áherslum Íslands í samhengi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Unnið var að stefnunni og aðgerðum hennar með hliðsjón af ýmsum öðrum stefnuskjölum og áætlunum stjórnvalda, þ.m.t. Menningarsókn – aðgerðaáætlun um listir og menningu, Nýsköpunarlandinu – stefnu stjórnvalda í nýsköpun, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2023 og menntastefnu fyrir árin 2021–2030. Drög nýrrar stefnu voru kynnt í samráðsgátt sumarið 2022 og bárust margar gagnlegar umsagnir og sjónarmið sem horft var til. Þá var boðað til vinnufundar um stefnuna síðasta vor þar sem fjölbreyttur hópur hagsmuna- og fagaðila úr hönnunargreinum, menntakerfi, félagasamtökum og stjórnkerfi kom saman til þess að rýna áherslusvið, móta tillögur að aðgerðum og forgangsraða þeim, og skilgreina hindranir. Ég vil kærlega þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og mótun þessa verkefnis.

Það er rík áhersla þessarar ríkisstjórnar að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með því að horfa til uppbyggingar innan greina sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Hönnun sem aðferðafræði er ákveðinn lykill að því að fullnýta slík tækifæri, ekki síst þau sem felast í örum tæknibreytingum, og stuðla að aukinni sjálfbærni. Aðferðafræði hönnunar er eitt besta verkfærið sem við höfum til að tengja sköpunarkraft, tækni og vísindi í þágu fólks og umhverfis. Hún nýtist með bæði beinum og óbeinum hætti við framfylgd velsældaráherslna stjórnvalda og hefur einnig sterk tengsl við mörg af undirmarkmiðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Umhverfi hönnunar og arkitektúrs hefur tekið örum breytingum síðustu ár. Skilningur almennings og atvinnulífs hefur breyst og dýpkað, aðferðafræði hönnunar hefur þróast, sérhæfing aukist og tækifærum til menntunar fjölgað.

Það er kraftur og sóknarhugur í íslensku hönnunarsamfélagi. Það sést allt í kringum okkur og það eru sannarlega tækifæri til aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar í hönnunargeiranum. Þar er mannauður og hugvit sem við getum virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt, ekki síst með aukinni hönnunardrifinni nýsköpun og þverfaglegu samstarfi eins og greina má í áherslum þingsályktunartillögunnar. Með því að virkja fagþekkingu hönnuða og aðferðafræði hönnunar enn frekar má hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og framtíðarlífsgæði. Við höfum allt að vinna með því að efla íslenska hönnun og arkitektúr sem fag- og atvinnugreinar, útflutningsgreinar og mikilvæga aðferðafræði. Allt eru þetta leiðir að bættum lífsgæðum fyrir samfélagið í heild.

Hæstv. forseti. Nú hef ég gert grein fyrir megináherslum þessarar þingsályktunartillögu og legg til að henni verði vísað til hæstv. atvinnuveganefndar.