Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[19:02]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans innlegg. Ég skal viðurkenna að ég er dálítið skotin í honum sem arkitekt, kannski ekki pólitískum en svo sannarlega fagarkitekt og beið í raun og veru full eftirvæntingar eftir því að heyra viðbrögð hans við hönnunarstefnu. Ég held að það sé rétt hjá mér að við séum núna með fyrstu þingsályktunartillöguna sem fjallar um hönnun og arkitektúr á Íslandi.

Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að það sem við höfum verið að gera, bæði í gamla mennta- og menningarmálaráðuneytinu og svo í nýja menningar- og viðskiptaráðuneytinu, er að innleiða ný vinnubrögð sem ganga út á það að móta markvissa stefnu í hverri einustu atvinnugrein sem við berum ábyrgð á. Það er stefna, aðgerðaáætlun og eftirfylgni. Nú þegar er farið að reyna á fyrstu stefnuna sem við mótuðum, kvikmyndastefnu, og það er skemmst frá því að segja að það gengur feikilega vel.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því þegar ég hóf störf í Stjórnarráði Íslands að mér fannst oft skorta á — það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að oft eru gerðar stefnur en eftirfylgni og framkvæmdin hefur kannski oft ekki verið nógu markviss. En ég tel að með þessu vinnulagi, þar sem við erum bæði með stefnur, aðgerðaáætlun, þingsályktun og eftirfylgni, munum við tryggja að þessi stefna verði til vegsauka fyrir málaflokkinn.