154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:36]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þetta. Það sem þarf að gerast í grunnskólanum er kannski ekki svo mikið öðruvísi en í framhaldsskólanum. Þar þarf einfaldlega það sama til, námsgögn og aukna samhæfingu. Ég bind mjög miklar vonir við hlutverk nýrrar Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og að þær aðgerðir sem tengjast inngildingu geti farið af stað á næstu vikum og fyrir haustið. En það er líka þannig að þó að við ráðumst í þær aðgerðir sem við ætlum okkur verðum við að vera meðvituð um það, íslenskt samfélag, ríki og sveitarfélög, að við þurfum að fjárfesta meira í þessum börnum með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn á næstu árum vegna þess að fleiri eru að koma þarna inn.

Rétt í lokin vil ég segja að lykilskólastigið er leikskólinn. Þar þurfum við að stíga miklu fastar inn og það er náttúrlega mjög erfitt á meðan leikskólastigið er undirmannað, eftirspurn er mikil, erfitt að manna það og mikið álag á starfsfólki. (Forseti hringir.) Við þurfum því að fara að nálgast leikskólastigið öðruvísi í umræðu, bæði fagfólk en líka pólitíkusar í landsmálum og í héraði.